Laugardagur, 21. janúar 2017

Í desember var matarvigtunar vika hjá okkur í Heiðarskóla. Þetta er árlegur viðburður í umhverfismennt Heiðarskóla og gengur út á að vigta matarleifar eftir hádegismat. Nemendur í hverjum bekk fyrir sig vinna saman og er markmiðið að henda sem minnstum mat.

Flestir bekkir hentu mjög litlu, minna en 100 grömmum á fimm dögum, en nemendur í níunda bekk urðu sigurvegarar með 0 grömm! Frábær árangur!

Með þessu verkefni erum við að vekja athygli á að matarsóun er umhverfisvandamál í heiminum.

Föstudagur, 20. janúar 2017

Í dag er bóndadagur og höfum við myndað okkur skemmtilega hefð að bjóða öllum körlum í lífi barnanna í karlakaffi. Við áttum góðan morgun saman með kaffibolla og brauðsneið í hönd. Takk fyrir komuna allir sem mættu og til hamingju með daginn bændur!

Við ákváðum einnig að halda þorrablót í hádeginu í dag. Börnin undirbjuggu það með því að gera víkingahjálma. Við smökkuðum ýmsan þorramat og ræddum heiti matarins. Börnum og starfsfólki fannst maturinn misgóður en allir fundu eitthvað við sitt hæfi. 

mánudagur, 16. janúar 2017
Umhverfisnefnd Heiðarskóla fundar einu sinni í mánuði og í nefndinni eru fulltrúar frá öllum bekkjum ásamt kennurum og einn almennur starfsmaður. Í ár eru það Freyja í 1.bekk, Oddur í 2.b., Aldís í 3.b., Arnþór Máni í 4.b., Ylfa í 5.b., Mikael í  6.b., Fanney í 7.b., Tristan í 8.b., María í 9.b. og Cisa úr 10.b. Fullorðna fólkið er Sigga Lára, Helena og Sigga Vill.
Föstudagur, 13. janúar 2017

Við í Heiðarskóla ætlum að fara að blogga um bækur og erum reyndar byrjuð þar sem einn nemandi í 10. bekk er búinn að setja inn fyrstu færsluna. Í sameiningu ætlum við að fjalla um bækur og bókmenntir frá ýmsum hliðum. Þetta gæti orðið skemmtilegt og spennandi verkefni og vonandi munu sem flestir taka þátt, hvort sem um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna, nemendur eða starfsfólk.

Fimmtudagur, 12. janúar 2017

Í morgun var sannkölluð gæðastund við varðeld í Heiðarskóla. Brynja Dís, Kolbeinn og Unndís lásu fyrir okkur sögur. Við sungum saman lagið "Kvekjum eld" og yljuðum okkur á heitum súkkulaðidrykk. Það myndast oft einhvers konar stemning við varðeld, hefur róandi áhrif og hver og einn horfir í eldinn með með hugsunum sínum. Í myndaalbúm eru komnar myndir frá varðeldastundinni.  

Pages