• Heiðarskóli
mánudagur, 16. október 2017

Nú er nýafstaðin vel heppnuð þemavika sem tengist grænfánavinnu skólans. Að þessu sinni var yfirskriftin Lýðheilsa eða "Heilsa yfir höfuð" eins og börnin í umhverfisnefnd vildu nefna þemað. Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið? Þetta eru spurningar sem við veltum fyrir okkur í þemavikunni.

  • Skólamál almennt
mánudagur, 16. október 2017

Fimmtudaginn 12. október s.l. kom Stjörnuhópur, elsti árgangur leikskólans, í fyrsta sinn í skólaheimsókn í Heiðarskóla. Börnin hófu daginn hjá Helgu í íþróttahúsinu, síðan þau hittu skólastjóra sem sýndi börnunum skólann, þau fengu m.a. að kíkja inn í stóra ísskápinn í mötuneytinu, leika í leikherberginu og skoða bókasafnið. Börnin virtust áhugsöm og ekki annað að sjá en þau væru spennt að skoða alls konar í Heiðarskóla. Margt að sjá á fyrsta degi en stefnt er að því að skólasamstarfið verður með fjölbreyttum hætti í vetur.

  • Heiðarskóli
mánudagur, 16. október 2017

Í dag fengu nemendur á miðstigi góðan gest í heimsókn í tengslum við Barnamenningarhátíð. Áslaug Jónsdóttir, rithöfundur, uppalin í Melaleiti í Melasveit, hitti nemendur og sagði þeim frá bókunum sínum. Miðstig Heiðarskóla tekur þátt í Barnamenningarhátíð þetta árið. Áslaug hafði orð á því að það hefði verið gaman að hitta nemendur Heiðarskóla, þeir hefðu verið áhugasamir og hlustað af athygli. Við þökkum Áslaugu kærlega fyrir komuna. 

Fimmtudagur, 5. október 2017

Börn í árgangi 2012 í Skýjaborg unnu smásagnakeppni KÍ, Heimilis og skóla og Samtaka móðurmálskennara í flokki leikskólabarna í ár, með söguna Kennarinn með blað í fanginu sínu. Af því tilefni fóru þau í dag til Reykjavíkur í Hörpuna að fá verðlaun afhent. Börnin fengu innrammað viðurkenningarskjal, Kindle lestölvu og stóran blómvönd.

Föstudagur, 29. september 2017

Nemendur í 7. bekk þreyttu samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í síðustu viku og nemendur í 4. bekk tóku íslenskupróf í gær og stærðfræðipróf í dag. Það er hefð fyrir því að eftir að samræmdum prófum er lokið bjóðum við krökkunum upp á skúffuköku. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af nemendum í 4. bekk gæða sér á kökunni ásamt kennara sínum. Börnin voru ánægð með prófið og fannst þeim ganga vel. 

Pages