Þriðjudagur, 29. maí 2018

23. maí fórum við í okkar árlegu ferð að Bjarteyjarsandi með börn 3 ára og eldri. Ferðin tókst mjög vel. Við sáum lömb, kiðlinga, kanínur og kanínuunga, grísi og þeir sem fóru í fjöruna skoðuðu meðal annars krossfiska og krabba. Gleði og leikur einkenndu ferðina. Takk kærlega fyrir okkur Bjarteyjarsandur. Alltaf gaman að koma.

Þriðjudagur, 29. maí 2018

Í dag fór útskriftarhópurinn okkar í útskriftarferðina sína á Akranes. Þau fóru í skógræktina, bókasafnið, fengu pizzaveislu á galito og fóru á Langasand. Mögnuð ferð og allir glaðir.

mánudagur, 28. maí 2018

Heiðarskóli tekur þátt í UNICEF - hreyfingingunni. Verkefnið er fræðslu- og fjáröflunarverkefni fyrir grunnskólabörn á Íslandi. Markmið þess er að fræða börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og virkja þau til samstöðu með jafnöldrum sínum víða um heim, taka þátt í hreyfingu og þeir sem vilja mega einnig safna áheitum. Áhersla er ekki lögð á háar upphæðir heldur að börnin upplifi samtakamáttinn sem felst í því að allir vinni saman og leggi sitt af mörkum til mannúðarmála. S.l. föstudag var hreyfihluti verkefnisins og börnin tóku þátt í Unicef - hlaupinu.

mánudagur, 28. maí 2018

Það var gaman í tómstund í góða veðrinu í dag. Börnin léku sér í fjölbreyttum leikjum og ekki annað að sjá en þau væru að njóta sín í frjálsum leik eins og sjá má á myndum sem komnar eru í myndaalbúm. 

Fimmtudagur, 24. maí 2018

Í gær fengum við góðan gest í heimsókn, Ara Ólafsson, frá Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Hann færði skólanum ljósakassa að gjöf. Kassinn var settur saman í tilefni af ári ljóssins og flestir grunnskólar landsins hafa nú þegar fengið kassann. Kassinn inniheldur íhluti til verklegrar kennslu í ljósfræði; ljóskastara, skautunarsíur, leisigeisla, ljósgreiður og sitthvað fleira sem nýta má til sýnikennslu, athugana og skapandi verkefna.

Pages