Fimmtudagur, 25. maí 2017

Við fengum góða gesti í heimsókn í gær, yngsta stig Klébergsskóla á Kjalarnesi heimsótti yngsta stig Heiðarskóla. Krakkarnir voru duglegir að leika og margir nýttu tækifærið til að kynnast nýjum krökkum. Við fórum í leiki, gönguferð og lékum á skólalóðinni, Tannakotslækurinn hafði mikið aðdráttarafl í leikjum barnanna nú sem fyrr. Eftir hádegið fóru 3. og 4. bekkur í sund og íþróttasalinn en 1. og 2. bekkur lék sér í leikherberginu og á bókasafninu. Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna. Í myndaalbúm eru komnar myndir sem teknar voru úti í góða veðrinu í gær. 

Þriðjudagur, 23. maí 2017

Mánudaginn 22. maí fóru börn 3 ára og eldri ásamt starfsfólki í sveitaferð að Bjarteyjarsandi. Vel var tekið á móti okkur, fengum við að sjá kindurnar, lömbin, geitur, grísi, kanínur og hænuunga. Við lékum okkur í hlöðunni, hoppuðum í heyjinu og fengum að halda á lömbum. Við fórum í fjöruna, skoðuðum sjávardýr í körunum og klifruðum í bátnum. Að lokum fengum við grillaðar pylsur, lékum á leikvellinum og fórum að lokum glöð og kát heim á leið aftur í rútunni. 

  • Heiðarskóli
Þriðjudagur, 23. maí 2017

Í dag fór skólastarfið fram í Álfholtsskógi á svokölluðum survivordegi. Nemendum skólans var skipt í 8 aldursblandaða hópa. Hver hópur valdi sér nafn; Lóan, Sveppirnir 17, Álfurinn Jónas, Maríubjöllur, Hrafnarnir og Sniglarnir. Krakkarnir reistu skýli í skóginum, hlóðu eldstæði og grilluðu pylsur, útbjuggu listaverk, leiki, leikföng og leikrit en fyrst og fremst nutu þeir þess að vera úti í góða veðrinu með vinum sínum við leik og störf. Í myndaalbúm eru komnar fullt af myndum sem teknar voru í skóginum í dag. 

mánudagur, 22. maí 2017

Nemendum okkar í 3. og 4. bekk var á dögunum boðið að koma í heimsókn að Leirárgörðum. Börnin hjóluðu í dag frá skólanum að Leirárgörðum, þar kíktu þau í fjárhúsin, fengu að skoða lömbin og jafnvel halda á þeim og þiggja veitingar gestgjafanna. Við þökkum kærlega fyrir okkur. Börnin skemmtu sér vel eins og sjá má á myndum sem komnar eru í myndaalbúm. 

sunnudagur, 21. maí 2017

Í vetur bauð Nemendaráð skólans foreldrum að kaupa skólapeysur með nafni barns og nafni skólans. Mikill áhugi var fyrir peysukaupunum og voru keyptar yfir 100 peysur. Það voru ánægð og þakklát börn sem tóku við peysunum sínum fyrir stuttu. Á mynd sem fylgir fréttinni má sjá börnin í 3. og 4. bekk ásamt kennurunum sínum í nýju skólapeysunum. Myndin var tekin á föstudaginn í blíðskaparveðri. Góða veðrið hefur sett mark sitt á skólastarfið undanfarna daga, mikið um útivist og margir hafa svipt sig úr skóm og sokkum vaðið í Tannakotslæknum. 

Pages