• Skólamál almennt
Föstudagur, 2. mars 2018

Í þessari viku byrjaði skólasamstarfið okkar aftur eftir frí. Þrátt fyrir töluverða fjarlægð á milli Skýjaborgar og Heiðarskóla leggjum við áherslu á að halda góðu samstarfi skólastiganna. Skipulagðir eru 7-8 dagar á hverri önn þar sem elsti árgangur í Skýjaborg fer ásamt kennara með rútu í Heiðarskóla eða fer í vettvangsferð með 1. bekk utan veggja skólans. Myndast hefur hefð í skólaheimsóknum að íþróttakennari tekur á móti börnunum, fyrir áramót fara þau í íþróttir og eftir áramót í sund. Fyrsta ferð ársins gekk vel og nutu börnin sín vel í sundi.

Miðvikudagur, 28. febrúar 2018

Á haustönn var unnið að svokölluðu ytra mati í Heiðarskóla. Ytra mat er samstarfsverkefni Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Menntamálastofnunar. Matsaðilar frá Menntamálastofnun sáu um framkvæmd ytra matsins í Heiðarskóla. 

Nú hefur verið gefin út opinber skýrsla um ytra mat á grunnskóla í Hvalfjarðarsveit, Heiðarskóla. Í dag var skýrslan kynnt fyrir starfsmönnum skólans og send foreldrum ásamt sérstöku bréfi um helstu niðurstöður.

Matinu er ætlað að vera umbótamiðað, benda á það sem vel er gert og tækifæri til úrbóta. 

sunnudagur, 25. febrúar 2018

Undanfarnar vikur hafa nemendur í 3. og 4. bekk verið að læra um Ísland í gamla daga, Þorrann og gömlu mánaðaheitin.  Á föstudaginn buðu börnin vinum sínum í 1. og 2. bekk á kynningu á verkefninu. Á kynningunni sýndu börnin mynd sem þau höfðu málað og lásu upp dagbókarfærslu. Börnin  höfðu sett sig í spor þeirra sem lifðu á Íslandi árið 1866 og skrifað dagbókarfærslu um lífið og tilveruna á þeim tíma. Þetta var virkilega skemmtileg og fróðleg kynning hjá krökkunum í 3. og 4. bekk. Í myndaalbúm eru komnar myndir frá kynningunni. 

Föstudagur, 23. febrúar 2018

Leikskólakennari / leiðbeinandi óskast til starfa í Skýjaborg

Leikskólakennari / leiðbeinandi í leikskóla óskast til starfa í Skýjaborg. Starfshlutfall er 50-62,5%. Óskað er eftir að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Laun eru samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélag.

  • Skýjaborg
Föstudagur, 23. febrúar 2018

Í dag fögnuðum við konudeginum sem var síðastliðinn sunnudag. Við buðum öllum konum í lífi barnanna til okkar í morgunkaffi. Allt gekk mjög vel og áttum við notalega stund saman í morgunsárið. Við þökkum öllum sem komu kærlega fyrir komuna.

Pages