• Heiðarskóli
Miðvikudagur, 4. febrúar 2015

Heiðarskóli tekur að vanda þátt í lífshlaupinu en fyrsti dagur í átakinu er einmitt í dag. Markmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni daglegu hreyfingu í frítíma, heimilisstörfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag og fullorðnir a.m.k. 30 mínútur á dag. Þar sem mikil hálka var á skólasvæðinu var ekki fært í okkar hefðbundnu upphafs hlaupa- eða gönguferð en til að hefja lífshlaupið formlega hittust allir í matsal skólans og tóku planka.

Þriðjudagur, 3. febrúar 2015

Þessa vikuna eru nemendur okkar í 1. – 3. bekk í uppbyggingarþema sem gjarnan er nefnt uppeldi til ábyrgðar. Áherslan í þemanu er á þarfakynningu og hlutverk barnanna og starfsmanna í skólanum. Aðferðafræði byrjendalæsis er nýtt í vinnunni þannig að börnin nota talað mál, lestur, hlustun og ritun sem leið til að læra um þarfir og mismunandi hlutverk. Einnig stendur til að krakkarnir geri viðhorfskönnun og súlurit í tenglsum við þemað og þar kemur stærðfræðin sterk inn. Verkefnið er samþætt og í góðum tenglsum við gildi skólans; vellíðan, virðing, metnaður og samvinna.

  • Skýjaborg
mánudagur, 2. febrúar 2015

Nú er að hefjast árleg tannverndarvika og munum við vinna ýmis verkefni tengd tannvernd og fræðslu um tennur með börnunum. Í ár er tannverndarvikan helguð umræðu um sykurmag í mat og ætlum við að fara í skoðun á því hvort of mikill sykur leynist í því sem við bjóðum upp á. 

  • Skýjaborg
mánudagur, 2. febrúar 2015

Á fimmtudaginn, 5. febrúar, munum við blóta Þorra í leikskólanum og sláum upp þorrablótsveislu í hádeginu. Börnin hafa undanfarið verið að undirbúa blótið með því að búa til víkingahjálma og æfa þorralög. 

Föstudagur, 23. janúar 2015

Stelpurnar í 6. bekk komu bekkjarbræðrum sínum hressilega á óvart í fyrsta tíma í morgun með kökuhlaðborði og skreytingum. Tilefnið var að sjálfsögðu bóndadagurinn. Fleiri námshópar eru að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins. Börnin í  bekk eru með popp og bíó þar sem strákarnir fá að velja myndina og unglingsstúlkur fengu að baka fyrir strákana. Til hamingju með daginn strákar!

Pages