Þriðjudagur, 9. september 2014

Rauði kross Íslands er 90 ára um þessar mundir og af því tilefni býður hann öllum grunnskólanemendum landsins upp á skyndihjálparkynningu.  Í gær fengu nemendur Heiðarskóla kynningu í skyndihjálp frá þeim Gerðu Bjarnadóttur og Ingibjörgu Gunnarsdóttur. Þær sýndu nemendum myndband um skyndihjálp, minntu á neyðarnúmerið 112 og fyrstu viðbrögð í skyndihjálp. Sérstaklega var fjallað um  hjartahnoð, aðskotahlut í hálsi, blæðingu og bruna. Þær afhentu skólanum einnig veggspjald um fyrstu viðbrögð í skyndihjálp. Nemendur hlustuðu af athygli og fengu í lokin að æfa  hjartahnoð á dúkkum.

Miðvikudagur, 3. september 2014

Undanfarna daga höfum við verið að undirbúa pappírsgerð. Við byrjuðum á að leyfa börnunum á Dropanum að leika sér með pappírsræmur sem fara í pappírsgerðina og leiddist þeim það ekki. Síðan var pappírinn lagður í bleyti, maukaður og þjappaður. Í morgun fóru elstu börnin í gönguferð og söfnuðu allskonar blómum, berjum, lyngi og stráum til að setja í pappírinn. Eftir hádegi hófst svo vinnan við sjálfa pappírsgerðina. Myndir komnar á myndasíðuna :) 

  • Skýjaborg
mánudagur, 1. september 2014

Nú eru flest börn og starfsfólk búin að skila sér aftur til okkar eftir sumarleyfi. Nokkrar breytingar hafa orðið hjá okkur í haust, bæði í barnahópnum og starfsmannahópnum.

Það fóru frá okkur 14 börn í sumar, sem eru að hefja grunnskólagöngu sína. Berglind Bergsdóttir, kennari, fylgir þeim í grunnskólann og verður kennarinn þeirra í 1. bekk. Árdís Hauksdóttir fór einnig til nýrra starfa við Heiðarskóla. Lára Böðvarsdóttir og Arndís Rós hættu í sumar. Við óskum þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Föstudagur, 29. ágúst 2014

Nemendur miðstigs fóru í haustferð á Þórisstaði á föstudaginn ásamt umsjónarkennurum og Hjálmi náttúrufræðikennara. Fínt veður var þennan dag, stillt og hlýtt, og krakkarnir skemmtu sér við hin ýmsu verkefni. Hægt var að fara í golf, skoða dýrin, tína ber og veiða í vatninu. Enginn veiddist samt fiskurinn en við bættum okkur það upp með grilluðum hamborgurum í hádeginu. Myndir frá ferðinni eru komnar í myndasafn.

Föstudagur, 29. ágúst 2014

Börnin í 1.-3. bekk fóru saman í gönguferð föstudaginn 29. ágúst. Allir fengu að velja sér nesti, settu það í bakpokann sinn og svo var arkað af stað. Gengið var upp með Leiránni og voru margir sem veltu því fyrir sér hvaðan allt þetta vatn kæmi. Nestið var snætt í gömlu sundlauginni og allir fengu tækifæri til þess að leika sér dálítið áður en haldið var heim á leið. Veðrið lék við hópinn og sóttist gangan vel þrátt fyrir að stórþýft væri á köflum. Komnar myndir á myndasafnið.

Pages