• Heiðarskóli
mánudagur, 12. janúar 2015

Sú hefð hefur skapast í Heiðarskóla að vigta af og til matarleifar í hádegismatnum. Þá vigtum við það sem hver og einn bekkur leifir. Í desember var vigtunarvika og krakkarnir stóðu sig aldeilis vel. Nemendur í 4. 6. 7. 8. 9. og 10. bekk leifðu engu þessa viku. Með þessu verkefni erum við að vekja börnin til umhugsunar um þá sóun sem felst í því að leifa mat. Ef við fáum okkur minna á diskinn og klárum matinn okkar þá sparast peningur sem við getum nýtt í eitthvað annað.

  • Heiðarskóli
Föstudagur, 9. janúar 2015

Nemendur í 1. bekk kláruðu endurskinskarlana sína í textílmennt í dag. Það voru stoltir krakkar sem hengdu endurskinskarlana á skólatöskurnar sínar. Annars fer skólastarfið vel af stað á nýju ári og ekki annað að sjá en börnin séu ánægð og glöð, njóti þess að hitta skólafélagana og tilbúin að gera sitt besta í náminu.

  • Skýjaborg
Þriðjudagur, 23. desember 2014

Okkar bestu óskir um gleðileg jól og gott og farsælt komandi ár. Þökkum öllum þeim fjölmörgu sem komið hafa að starfi leikskólans fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Jólakveðja, börn og starfsfólk Skýjaborgar.

Föstudagur, 19. desember 2014

Litlu jólin voru haldin hátíðleg í Heiðarskóla í dag. Húsbandið skipað þeim Ödda, Loga, Hjálmi, Siggu V, Hrönn, Jónellu, Einari og Alexöndru spilaði og söng hin ýmsu jólalög á jólaballinu. Nokkrir jólasveinar mættu í heimsókn og færðu krökkunum nammipoka. Börnin áttu síðan sína jólastund með umsjónarkennara í stofum.  Að lokum var snæddur  hátíðarmatur, hangikjöt með tilheyrandi og í eftirrétt var íslblóm. Í tveimur boxunum leyndust „möndlur“ og fengu þeir Ólafur Vignir og Einar Þór hin svokölluðu möndluverðlaun. Skólabílarnir fóru héðan um klukkan 14 og börnin komin í langþráð jólafrí.

Fimmtudagur, 18. desember 2014

Litlu jólin verða haldin í Heiðarskóla á morgun föstudag. Dagurinn er styttri í báða enda, börnin mæta klukkan 11:00 í skólann og heimkeyrsla verður klukkan 14:00. Á litlu jólunum er dansað í kringum jólatré, hljómsveit hússins sér um tónlistina, jólasveinar koma í heimsókn, haldin eru stofujól og endað er á sameiginlegri hátíðarmáltíð.

Pages