Heiðarskóli

Þriðjudagur, 3. febrúar 2015

Þessa vikuna eru nemendur okkar í 1. – 3. bekk í uppbyggingarþema sem gjarnan er nefnt uppeldi til ábyrgðar. Áherslan í þemanu er á þarfakynningu og hlutverk barnanna og starfsmanna í skólanum. Aðferðafræði byrjendalæsis er nýtt í vinnunni þannig að börnin nota talað mál, lestur, hlustun og ritun sem leið til að læra um þarfir og mismunandi hlutverk. Einnig stendur til að krakkarnir geri viðhorfskönnun og súlurit í tenglsum við þemað og þar kemur stærðfræðin sterk inn. Verkefnið er samþætt og í góðum tenglsum við gildi skólans; vellíðan, virðing, metnaður og samvinna.

Föstudagur, 23. janúar 2015

Stelpurnar í 6. bekk komu bekkjarbræðrum sínum hressilega á óvart í fyrsta tíma í morgun með kökuhlaðborði og skreytingum. Tilefnið var að sjálfsögðu bóndadagurinn. Fleiri námshópar eru að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins. Börnin í  bekk eru með popp og bíó þar sem strákarnir fá að velja myndina og unglingsstúlkur fengu að baka fyrir strákana. Til hamingju með daginn strákar!

Miðvikudagur, 21. janúar 2015

Þessa vikuna dvelja nemendur okkar í skólabúðum á Reykjum í Hrútafirði ásamt öðrum nemendum af Vesturlandi. Í gær fóru krakkarnir í sund, íþróttir, undraheim auranna, náttúrufræði þar sem fjaran var skoðuð og einhverjir fóru á byggðasafnið. Í gærkvöldi var að sjálfsögðu horft á handboltaleikinn og síðan var haldin kvöldvaka þar sem okkar fólk úr Heiðarskóla sá um tvo leiki fyrir framan 110 nemendur og vafðist það ekki fyrir þeim. Allir eru glaðir og ánægðir eftir því sem við best vitum. Hópurinn kemur heim á föstudaginn. 

Föstudagur, 16. janúar 2015

Nemendur og starfsmenn Heiðarskóla áttu saman dásamlega sögustund við varðeld í morgunsárið. Oddur Örn í 6. bekk las frumsamda sögu um Skugga, Jóhanna í 8. bekk las söguna um Einfætta dátann, sagan var samin í átthagaþemanu sem haldið var í haust og er eftir þær Jóhönnu, Jórunni og Brimrúnu í 8. bekk. Kjartan og Brynja Lind voru fulltrúar yngsta stigs og við fengum að heyra sögur eftir þau. Nemendur hlustuðu af athygli á þessar skemmtilegu sögur.

  • Heiðarskóli
mánudagur, 12. janúar 2015

Sú hefð hefur skapast í Heiðarskóla að vigta af og til matarleifar í hádegismatnum. Þá vigtum við það sem hver og einn bekkur leifir. Í desember var vigtunarvika og krakkarnir stóðu sig aldeilis vel. Nemendur í 4. 6. 7. 8. 9. og 10. bekk leifðu engu þessa viku. Með þessu verkefni erum við að vekja börnin til umhugsunar um þá sóun sem felst í því að leifa mat. Ef við fáum okkur minna á diskinn og klárum matinn okkar þá sparast peningur sem við getum nýtt í eitthvað annað.

Pages