Heiðarskóli

Þriðjudagur, 31. október 2017

Í dag fengum við góða gesti þegar fulltrúar frá Slysavarnardeildinni Líf á Akranesi færðu nemendum skólans endurskinsmerki að gjöf. Við þökkum Slysavarnardeildinni kærlega fyrir þessa mikilvægu gjöf og hvetjum nemendur skólans til að nota endurskinmerki nú þegar svartasta skammdegið er framundan.  

Föstudagur, 27. október 2017

Síðastliðinn miðvikudag tók skólabókasafn Heiðarskóla bóksafnskerfið Gegni í notkun. Gegnir er það kerfi sem algengast er að bókasöfn á Íslandi noti. Safnkosturinn er skráður í miðlægan gagnagrunn og getur hver sem er skoðað hvort bók er til á safninu okkar með því að kíkja inn á leitir.is.

Aðdragandinn hefur verið langur og áður en hægt að var að taka Gegni í notkun þurfti að skrá allan bókakost safnsins. Þá var tækifærið notað og heilmikil tiltekt gerð á safninu þar sem gamlar og úreltar bækur voru afskráðar.

  • Heiðarskóli
Föstudagur, 27. október 2017

Þessa dagana taka nemendur okkar á miðstigi þátt í barnamenningarhátíð. Hátíðin var sett við Tónlistarskólann á Akranesi í gærmorgun þegar nemendur af miðstigi Heiðarskóla, Grundaskóla og Brekkubæjarskóla dönsuðu fyrir gesti. Að því loknu voru þrjár sýningar þessara barna opnaðar á bókasafninu, í tónlistarskólanum og í Guðnýjarstofu. Hópurinn borðaði síðan saman á Galító. Heiðarskólanemendur nýttu tækifærið og kíktu líka í heimsókn í Brekkubæjarskóla og Landmælingar Íslands þar sem þeir fengu góðar móttökur. 

  • Heiðarskóli
mánudagur, 16. október 2017

Nú er nýafstaðin vel heppnuð þemavika sem tengist grænfánavinnu skólans. Að þessu sinni var yfirskriftin Lýðheilsa eða "Heilsa yfir höfuð" eins og börnin í umhverfisnefnd vildu nefna þemað. Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið? Þetta eru spurningar sem við veltum fyrir okkur í þemavikunni.

  • Heiðarskóli
mánudagur, 16. október 2017

Í dag fengu nemendur á miðstigi góðan gest í heimsókn í tengslum við Barnamenningarhátíð. Áslaug Jónsdóttir, rithöfundur, uppalin í Melaleiti í Melasveit, hitti nemendur og sagði þeim frá bókunum sínum. Miðstig Heiðarskóla tekur þátt í Barnamenningarhátíð þetta árið. Áslaug hafði orð á því að það hefði verið gaman að hitta nemendur Heiðarskóla, þeir hefðu verið áhugasamir og hlustað af athygli. Við þökkum Áslaugu kærlega fyrir komuna. 

Pages