Heiðarskóli

Miðvikudagur, 8. febrúar 2017

Vegna slæmrar veðurspár fellur skólahald niður í dag, miðvikudaginn 8. febrúar. 

Miðvikudagur, 25. janúar 2017

Þessa viku eru nemendur 7. bekkjar staddir í Reykjaskóla í Hrútafirði ásamt Einari kennara sínum. Þar munu þau fást við ýmiskonar leiki og störf ásamt krökkum úr Borgarnesi, Dölunum, Laugargerði, Klébergsskóla og Breiðholtsskóla. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna náttúrufræði,  sögu, fjármálafræðslu, íþróttir og sund. Það er hið besta veður við Hrútafjörðinn í dag (miðvikudag), hiti um frostmark, léttskýjað og logn. Á morgun verður hin víðfræga hárgreiðslukeppni drengja haldin og þar á Heiðarskóli að sjálfsögðu keppanda.

Laugardagur, 21. janúar 2017

Í desember var matarvigtunar vika hjá okkur í Heiðarskóla. Þetta er árlegur viðburður í umhverfismennt Heiðarskóla og gengur út á að vigta matarleifar eftir hádegismat. Nemendur í hverjum bekk fyrir sig vinna saman og er markmiðið að henda sem minnstum mat.

Flestir bekkir hentu mjög litlu, minna en 100 grömmum á fimm dögum, en nemendur í níunda bekk urðu sigurvegarar með 0 grömm! Frábær árangur!

Með þessu verkefni erum við að vekja athygli á að matarsóun er umhverfisvandamál í heiminum.

Föstudagur, 13. janúar 2017

Við í Heiðarskóla ætlum að fara að blogga um bækur og erum reyndar byrjuð þar sem einn nemandi í 10. bekk er búinn að setja inn fyrstu færsluna. Í sameiningu ætlum við að fjalla um bækur og bókmenntir frá ýmsum hliðum. Þetta gæti orðið skemmtilegt og spennandi verkefni og vonandi munu sem flestir taka þátt, hvort sem um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna, nemendur eða starfsfólk.

Fimmtudagur, 12. janúar 2017

Í morgun var sannkölluð gæðastund við varðeld í Heiðarskóla. Brynja Dís, Kolbeinn og Unndís lásu fyrir okkur sögur. Við sungum saman lagið "Kvekjum eld" og yljuðum okkur á heitum súkkulaðidrykk. Það myndast oft einhvers konar stemning við varðeld, hefur róandi áhrif og hver og einn horfir í eldinn með með hugsunum sínum. Í myndaalbúm eru komnar myndir frá varðeldastundinni.  

Pages