Skýjaborg

mánudagur, 19. febrúar 2018

Árlega í jan/feb blöndum við saman fræjum og fitu og búum til fuglafóður fyrir smáfuglana. Það gerðum við í síðustu viku og hengdum upp í tré og settum á snjóinn. Fuglarnir hafa aðeins látið sjá sig eins og sjá má ef vel er að gáð á myndinni hér. Með þessari vinnu verða börnin betur meðvituð um náttúruna, dýralífið og þá smáfugla sem eru hjá okkur allan ársins hring. 

Föstudagur, 9. febrúar 2018

Elsta árgangi í leikskóla (2012) á Akranesi og Hvalfjarðarsveit var boðið í heimsókn á slökkvistöðina í dag. Þráinn slökkvistjóri tók á móti börnunum og sagði þeim frá 112 deginum sem er á sunnudaginn og svo var horft á nýja mynd með Gló og Loga. Í henni var farið yfir mikilvægi þess að hafa reykskynjara í húsum, slökkvitæki tiltæk, eldvarnarteppi í eldhúsum og hringja í 112 ef upp kemur eldur. Eftir áhorfið fengu börnin nokkuð frjálsar hendur að skoða slökkviliðsbílana, máta hjálma og sprauta vatni úr slöngu. 

Miðvikudagur, 7. febrúar 2018

Í gær 6. febrúar fögnuðum við Degi leikskólans. Í tilefni dagsins höfðum við deildarugl, en þá er opið á milli deilda og frjáls leikur flæðir um leikskólans óháð aldri eða deild. Mikil gleði er þegar deildarugl er í boði og hefur þeim dögum sem það er í boði því fjölgað hægt og rólega vegna ánægju barnanna.

Að sjálfsögðu fórum við einnig út og flögguðum fyrir Degi leikskólans.

Í síðdegishressingunni buðum við svo upp á vöfflur. 

Góður hátíðisdagur. 

Föstudagur, 19. janúar 2018

Til hamingju með daginn kæru bændur landsins. 

Við í leikskólanum Skýjaborg tókum vel á móti þorranum. Í morgun á milli 8:30 og 10:00 buðum við öllum karlmönnum í lífi barnanna velkomna í morgunkaffi til okkar. Mæting var góð og áttum við notalega stund saman. Takk kærlega fyrir komuna allir sem sáu sér fært að mæta og njóta morgunsins með okkur. 

Í hádeginu höfðum við svo þorrablót. Boðið var upp á hangikjöt, uppstúf m. kartöflum, rófustöppu, sviðsultu, harðfisk, hákarl, súra hrútspunga, flatkökur og rúgbrauð. 

  • Skýjaborg
Föstudagur, 12. janúar 2018

Í gær brutum við upp hversdaginn og höfðum dótadag, þar sem börnin máttu koma með dót að heiman. Reglulega er starfsfólk spurt um dótadag og reynum við að vera við þeirri ósk einu sinni á ári. Að auki hefur myndast hefð fyrir útidótadegi á sumrin. Þetta var góður dagur og það komu alls kyns leikföng að heiman og mynduðust skemmtilegir leikir.

Pages