Skýjaborg

Þriðjudagur, 14. febrúar 2017

Á mánudaginn í síðustu viku, þann 6. febrúar, héldum við upp á Dag leikskólans. Við skelltum okkur öll saman út, drógum íslenska fánan á hún og fórum í göngutúr um hverfið. Þess má geta að fáninn vakti eftirtekt og var fólk að velta fyrir sér af hverju væri flaggað og gaf það tækifæri til umræðna um Dag leikskólans.

Föstudagur, 20. janúar 2017

Í dag er bóndadagur og höfum við myndað okkur skemmtilega hefð að bjóða öllum körlum í lífi barnanna í karlakaffi. Við áttum góðan morgun saman með kaffibolla og brauðsneið í hönd. Takk fyrir komuna allir sem mættu og til hamingju með daginn bændur!

Við ákváðum einnig að halda þorrablót í hádeginu í dag. Börnin undirbjuggu það með því að gera víkingahjálma. Við smökkuðum ýmsan þorramat og ræddum heiti matarins. Börnum og starfsfólki fannst maturinn misgóður en allir fundu eitthvað við sitt hæfi. 

  • Skýjaborg
mánudagur, 9. janúar 2017

Á fimmtudaginn var buðum við upp á innidótadag. En börn á Regnboganum höfðu óskað eftir dótadegi á haustmánuðum við skólastjóra og auðvitað reynum við að uppfylla óskir barnanna. Fjölbreytt og skemmtilegt dót mætti með börnunum og flottur leikur myndaðist. Börnin voru einnig dugleg að skiptast á og leyfa öðrum að leika með og skoða dótið sitt. 

Föstudagur, 23. desember 2016

Leikskólinn er lokaður mánudaginn 26. desember, en opinn aðra virka daga. Opnum svo aftur 2. janúar og vekjum við athygli á því að það er enginn starfsdagur í janúar. 

Eigið gleðileg jól! 

 

Miðvikudagur, 14. desember 2016

Við héldum litlu jólin okkar í morgun. Það var sungið og dansað í kringum jólatréð. Jólasveinninn kjötkrókur mætti í heimsókn, söng og dansaði með okkur, sýndi okkur smá töfrabrögð og gaf okkur mandarínur. Mikil gleði að fá þann rauðklædda í heimsókn, takk fyrir okkur kæra foreldrafélag. Eftir mandarínuát fengu börnin tækifæri til að horfa á jólamynd ef áhugi var fyrir hendi, aðrir fóru í leik. Í hádeginu fengum við dýrindis jólamat; bayonskinku, kartöflur, maískorn, grænar baunir, rauðkál og sósa. Myndir eru komnar á myndasíðuna. 

Pages