Skýjaborg

Miðvikudagur, 31. maí 2017

Á þessum fallega og bjarta degi fengum við grænfánann afhentan í fjórða sinn. Við komum saman í kringum fánastöngina og fulltrúi Landverndar afhenti okkur nýjan fána og viðurkenningarskjal. Stafahópur, sem hefur sitið í umhverfisnefnd í vetur, tók við fánanum og dró hann á hún. Að lokum fórum við inn og fengum við nýbakað brauð og álegg. Við hvetjum alla til að hugsa vel um umhverfi sitt og sitt vistspor. Það skiptir virkilega máli. 

Þriðjudagur, 30. maí 2017

Á morgun, miðvikudaginn 31. Maí 2017 kl. 14:00, fáum við fjórða grænfánann okkar afhentan. Við bjóðum öllum hjartanlega velkomna að koma og gleðjast með okkur.

Föstudagur, 26. maí 2017

Matráður óskast til starfa í leikskólanum Skýjaborg frá og með ágúst 2017. Um framtíðarstarf er að ræða í 100% stöðu. Við leitum að matráði sem hefur brennandi áhuga á að elda hollan, góðan og næringarríkan mat í samræmi við Manneldismarkmið Lýðheilsustöðvar. Umsækjandi þarf að hafa góða skipulagshæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum. Reynsla af starfi í mötuneyti æskileg.

Umsóknarfrestur er til 15. júní 2017.

Starfið hentar jafnt körlum sem konum. Laun eru samkvæmt viðkomandi kjarasamningi.

 

Þriðjudagur, 23. maí 2017

Mánudaginn 22. maí fóru börn 3 ára og eldri ásamt starfsfólki í sveitaferð að Bjarteyjarsandi. Vel var tekið á móti okkur, fengum við að sjá kindurnar, lömbin, geitur, grísi, kanínur og hænuunga. Við lékum okkur í hlöðunni, hoppuðum í heyjinu og fengum að halda á lömbum. Við fórum í fjöruna, skoðuðum sjávardýr í körunum og klifruðum í bátnum. Að lokum fengum við grillaðar pylsur, lékum á leikvellinum og fórum að lokum glöð og kát heim á leið aftur í rútunni. 

Miðvikudagur, 17. maí 2017

Í dag útskrifuðum við 10 flotta krakka úr leikskólanum Skýjaborg sem munu öll hefja grunnskólagöngu í haust í Heiðarskóla. Útskriftarhópurinn söng tvö lög og fóru með þulu. Það er búið að vera gleðilegt að fylgjast með þessum flottu börnum vaxa og dafna. Börnin fengu útskriftarskírteini og gjöf, sem voru birkitré til minningar um veru þeirra í Skýjaborg. Við óskum þem alls hins besta í framtíðinni. Myndir komnar á myndasíðuna. 

Pages