Skíðaferð unglingadeildar

Orð eru til alls fyrst. Þetta fengu nemendur Heiðarskóla að upplifa eftir að upp kom hugmynd um skíðaferð unglingadeildar í Nemendafélagi skólans. Skemmst er frá því að segja að hugmyndin varð að veruleika. Krakkarnir fóru í skíðaferð í gær og hér á eftir má lesa frásögn Maríu Bjarkar Ómarsdóttur nemanda í 10. bekk af skíðaferðinni. 

"Að morgni fimmtudags, þann 25. janúar, fór öll unglingadeild Heiðarskóla, ásamt kennurum, í skíðaferð í Bláfjöll. Eftir að allir voru búnir að smyrja sér nesti frá skólanum var lagt af stað kl. 09:20 með rútu þar sem að mikil þreyta var í andrúmsloftinu. Þegar bílferðinni lauk fóru allir að búa sig undir kuldann og leigja búnað. Allir þeir sem þurftu búnað í unglingadeild fengu hann frítt þar sem Nemendafélagið borgaði fyrir krakkana. Þegar búið var að græja sig upp var rennt af stað. Þar sem að flestir höfðu aldrei eða mjög sjaldan stigið á skíði var mjög mikið verið að detta í byrjun en þegar leið á daginn voru flestir komnir upp á lagið. Eftir u.þ.b. tvo tíma í brekkunum voru margir orðnir svangir og var því farið inn í skála í nestisstund, heitt kakó, kex og samlokur. Dagurinn endaði í stóru brekkunum og voru næstum allir sammála um að þetta hafi verið skemmtileg ferð og vilja fara aftur. "