Dagur umhverfisins

Degi umhverfisins voru gerð góð skil í Heiðarskóla í blíðskaparveðri í gær. Dagurinn hófst á ráðstefnu þar sem Tómas Knútsen sagði okkur frá starfsemi Bláa hersins og Jónína Hólmfríður Pálsdóttir sagði okkur frá lífríki Grunnafjarðar og Ramsarsamþykktinni.  Eftir ráðstefnuna fór hópurinn í fjöruhreinsun og náttúruupplifun í Grunnafjörð. Nemendur í 1. - 4. bekk gengu frá Fellsöxl að Álfholtsskógi og nemendur í 5. - 10. bekk gengur frá Laxárbökkum, fyrir Lambhaganesið, að Álfholtsskógi þar sem hópurinn sameinaðist í grillveislu. Fulltrúi ungmennafélagsins aðstoðaði okkur við grillið og ungmennafélagið lagði einnig til poka í fjöruhreinsunina. Kvenfélagið gaf okkur múffur, kleinur og snúða í nesti. Sveitarfélagið aðstoðaði okkur með staðarval og að koma ruslinu á réttan stað. Við þökkum öllum sem veittu okkur aðstoð í gær kærlega fyrir. Í myndaalbúm er komnar myndir.