Grænfáninn

 

Skýjaborg er Grænfánaskóli 

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum í tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra  starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

 Sjá nánar um verkefnið á www.landvernd.is

Skýjaborg flaggaði sínum fyrsta Grænfána 2010, öðrum 2012, þriðja 2014, fjórða 2017 (en tekin voru þrjú ár á milli þriðja og fjórða grænfánans að ósk Landverndar til að samtilla grænfánaafhendingu Skýjaborgar og Heiðarskóla), fimmta 2019, sjötta 2021 og sjöunda 2023. Leikskólinn Skýjaborg hefur sett sér umhverfissáttmála sem má skoða hér: Umhverfissáttmáli Skýjaborgar

Í Skýjaborg eru börn í elsta árgangi í umhverfisnefnd ásamt sínum kennara og leikskólastjóra. Síðan haustið 2010 hefur elsti árgangurinn verið í umhverfisnefnd og er áherslan á að hlusta á þeirra viðhorf, skoðanir og hugmyndir. Á fundum er farið vel yfir hlutverk umhverfisnefndarinnar, Grænfánaverkefnið og er reynt að vekja ábyrgðarkennd barnanna fyrir nánasta umhverfi okkar. Fundirnir eru misformlegir eftir viðfangsefnum fundanna. Stundum er fundurinn hefðbundinn, þar sem setið er við borð eða í hring og spjallað um ákveðið viðfangsefni en stundum er viðfangsefnið þannig að það er gert í verki og rætt við börnin á meðan unnið er að ákveðnu umhverfisverkefni. Umhverfismennt og náttúruvernd rennur eins og rauður þráður í gegnum allt starf í skólanum og er hugað að umhverfinu í öllu skipulagi.

Einnig fundar allt starfsfólk leikskólans saman sem umhverfisnefnd fullorðinna 2-3 sinnum á ári. 

Einu sinni á ári reynir umhverfisnefnd Heiðarskóla og umhverfisnefnd Skýjaborgar að funda saman og vinna að einhverju umhverfisverkefni, s.s. skoða ummerki vorsins eða gróðursetja.

 

Hér til hliðar má finna fundargerðir umhverfisnefndanna, ásamt öðru sem leikskólinn hefur unnið að í tengslum við umhverfismennt.

Hér fyrir neðan má finna grænfánaskýrslurnar: 

Skýrsla grænfánaverkefnis 2023

Skýrsla grænfánaverkefnis 2021

Skýrsla grænfánaverkefnis 2019

Skýrsla grænfánaverkefnis 2017 

Skýrsla grænfánaverkefnis  2014

Umsókn um endurnýjun 2012