- Fréttir
- Skólastarfið
- Starfsfólk
- Heiðarskóli
- Skýjaborg
- Foreldrar
- Menntastefna
Könnunarleikurinn hefur helst verið notaður á yngri deild leikskólans, en eftir því sem börnin eldast hafa þau sótt í að halda áfram að leika með verðlaust efni og hefur aðferðin því fundið leið í leik á eldri deildinni.
Hugmyndasmiðir könnunarleiksins eru Elinor Goldschmied og Sonja Jackson. Þær hafa útfært aðferð til kennslu sem kallast “Heuristic paly with objects” eða könnunarleikur með hluti þar sem börnin leitast við að kanna umhverfi sitt án hjálpar frá fullorðnum. Meðfæddur áhugi þeirra og forvitni eru þannig vakin á umhverfinu og fær útrás í könnunarleiknum.
Markmið aðferðarinnar er að börnin uppgötvi hlutina og möguleika þeirra með snertingu, lykt, bragði, heyrn og sjón. Í könnunarleiknum eru öll þessi skilningarvit örvuð sem og gróf- og fínhreyfingar. Hverju barni gefst tækifæri á að uppgötva efniviðinn og umhverfi sitt á sínum forsendum.
Könnunarleikur kemur ekki í staðinn fyrir leik heldur er ætlaður sem viðbót til að auðga leik yngstu barnanna (1-3 ára).
Það er engin rétt leið í könnunarleik, efniviður er mismunandi eftir því hverju kennararnir safna, auk þess hafa kennarar mismunandi hugmyndir. Þessi aðferð hvetur til þess að hinn fullorðni sé skapandi og geri umhverfið að örvandi stað fyrir yngstu börnin.
Efniviðurinn í könnunarleiknum er ekki leikföng í eiginlegum skilningi, heldur verðlaust efni. Hér getur verið um að ræða dósalok, mismunadi plastílát, keðjubúta, lykla, tvinnakefli, efnisbúta og ýmislegt annað sem eru engu að síður jafn spennandi leikföng og þau hefðbundnu.
Börnin eiga sjálf að kanna efniviðinn án þess að hinn fullorðni gefi ákveðnar hugmyndir. Uppgötvunin á að koma frá þeim sjálfum. Kennarinn á að vera áhorfandi, ekki hafa áhrif á leikinn og einungis að skerast inn í leikinn ef nauðsyn krefur. Hins vegar er það hlutverk kennarans að gera skráningu á leik og samskiptum barnanna á meðan könnunarleik stendur.
Tiltektin er jafnmikilvæg og leikurinn sjálfur. Kennarinn stjórnar með því að biðja börnin um að ná í hlutina og setja í réttan poka og hjálpa þeim að finna hlutina. T.d. með því að segja: þarna undir stólnum, náðu í bláu dósina við hliðina á mér o.s.frv. Þannig er hægt að kenna börnunum hin ýmsu hugtök og liti.