Skólastarfið


Skólastjóri: Sigríður Lára Guðmundsdóttir

Skólahald í Heiðarskóla hefst formlega haustið 1965 í nýbyggðu húsnæði, skólinn var framan af heimavistarskóli með tilheyrandi svefnherbergjum og fáum kennslustofum. Þegar skólinn verður heimanaksturskóli er svefnherbergjum breytt í kennslustofur. Haustið 2011 flytur Heiðarskóli í nýtt húsnæði og sameinast við þau tímamót leikskólanum Skýjaborg. Við sameininguna fékk skólinn nafnið Leik- og grunnskóli Hvalfjarðarsveitar. Grunnskólasviðið heitir eftir sem áður Heiðarskóli.


Nemendafjöldi er yfirleitt í kringum 90 nemendur. Kennt er í þremur námshópum í teymiskennslu; 1. - 4. bekkur, 5. - 7. bekkur og 8. - 10. bekkur. Í teymiskennslu eru tveir til þrír kennarar með hverjum nemendahópi og bera sameiginlega ábyrgð á námi og velferð nemendanna. Í svo fámennum skóla skapast heimilislegar aðstæður þar sem allir þekkja alla og eru tilbúnir til að hjálpa þegar eitthvað bjátar á. Góð líðan nemenda er höfð í öndvegi þegar kemur að skólastarfinu enda vellíðan eitt af gildum skólans.

Í Heiðarskóla er starfað eftir leiðum Uppbyggingarstefnunnar; Uppeldi til ábyrgðar. Mikið er lagt upp úr sjálfsaga og ábyrgð einstaklingsins á eigin hegðun og námi. Lífsgildin okkar eru vellíðan, virðing, metnaður og samvinna.

Í Heiðarskóla er stutt í ósnortna náttúru og hún óspart nýtt í hin ýmsu verkefni er tengjast skólastarfinu. Heiðarskóli  er Skóli á grænni grein. Umhverfisnefnd er starfandi við skólann skipuð fulltrúum úr öllum bekkjum. Útinám, umhverfismennt, gönguferðir og skólaferðalög eru fastir liðir í skólastarfinu. 

Skólinn heldur tvær stórar skemmtanir á hverju ári, Fullveldishátið í tengslum við Fullveldisdaginn 1. des og árshátíð sem haldin er fyrir páska.