- Fréttir
- Skólastarfið
- Starfsfólk
- Heiðarskóli
- Skýjaborg
- Foreldrar
- Menntastefna
Á Dropanum dvelja að jafnaði 16 börn á aldrinum 18 mánaða til 3ja ára.
Á Dropanum hefja flest börnin leikskólagöngu sína og er lögð mikil áhersla á að upphafið verði börnum og foreldrum þeirra sem ánægjulegast. Aðlögun er einstaklingsmiðuð og skipulögð í samráði við foreldra. Allt miðar að því að barnið verði öruggt og ánægt í leikskólaumhverfinu svo það geti notið sín í leikskólanum sínum.
Sjálfsprottinn leikur er í fyrirrúmi á Dropanum. Lögð er áhersla á að börnin fái tíma og rými til að leika sér, kanna, uppgötva og endurtaka. Opinn efniviður er notaður í leik ásamt öðrum fjölbreyttum efnivið m.a. til að þróa leikinn. Dagskipulag tekur mið af barnahópnum hverju sinni þar sem miðað er að þörfum hvers og eins t.d. varðandi svefnvenjur. Sjónrænt skipulag hangir upp á vegg svo börnin sjái hvað komi næst.
Málörvun er rauður þráður í öllu starfi á Dropanum og unnið er eftir Handbók Skýjaborgar: Leikur, mál og læsi. Starfsfólk leggur upp með að spjalla mikið við börnin í daglegum aðstæðum og leggja orð á það sem verið er að fást við og hvetja þau til að nota orðin sín. Á hverjum degi er einnig lesnar bækur í litlum hópum. Skipulegar málörvunarstundir eru daglega þar sem er lesið, farið með þulur og/eða skoðaðar myndir og hlutir til að auka orðaforða. Vikulega er lagt inn málhljóð vikunnar með aðstoð Lubba, sem má lesa nánar um hér.
Börnin æfa sig að vera í samskiptum við önnur börn í stærri og minni hópum yfir daginn. Unnið er með vináttu og samskipti með boðskiptareglum Bínu og vináttu- og forvarnarverkefnið Blær. Sjá nánar hér.
Það er mikið sungið á hverjum degi á Dropanum. Börnin fá vikulegar tónlistarstundir með tónlistarkennara, þar sem tónlist er meðal annars tengd við þema hvers mánaðar. Þemun eru líka fléttuð inn í annað starf á deildinni, eins og söngva, þulur og hópastarf.
Útivera og útinám er stór hluti af leikskóladeginum. Farið er út á hverjum degi, 1-3 sinnum. Leikið er í garðinum, útieldhúsinu og farið í gönguferðir í nærsamfélaginu.