Skólastarfið

Leikskólastjóri: Eyrún Jóna Reynisdóttir

Leikskólasvið skólans er staðsett í miðju íbúðahverfi í miðri Hvalfjarðarsveit. Í nánasta nágrenni er ósnortin náttúra allt um kring og skjólsælt leikumhverfi. Leikskóli í Fannahlíð var formlega stofnaður þann 8. desember 1996 af þeim hreppum sem síðar sameinuðust í Hvalfjarðarsveit. Fljótlega var samþykkt að hefja byggingu leikskólahúsnæðis í Melahverfi og var hann opnaður þar í janúar árið 1999, þá sem einnar deildar leikskóli. Árið 2007 var opnuð ný deild við leikskólann og tekur skólinn nú á móti um 40 börnum á aldrinum 18 mánaða til 6 ára.

Leikskólinn byggir starf sitt á kenningum John Dewey um að læra af reynslunni, þar sem börnin eru virkir þátttakendur í skipulagningu og framkvæmd leikskólastarfsins. Opinn efniviður er í forgrunni, efniviður sem býður upp á endalausa leikmöguleika en ekki fyrirfram gefnar lausnir.

Gildi leikskólans eru virðing, vellíðan, metnaður og samvinna og geta kennarar ávallt spurt sig að því hvort viðbrögð eða framkoma þeirra stuðli að því að kenna börnum gildin.

Leikurinn er náms- og þroskaleið barnsins og er mikilvægt að leiknum sé gefinn góður tími og nægt rými í leikskólanum til að þróast.

barn með stækkunargler að skoða jarðveginn