Regnboginn

Á Regnboganum dvelja að jafnaði 24 börn á aldrinum 3-6 ára.

Deildarnámskrá Regnbogans.

Í daglegu starfi er unnið í hópastarfi og í frjálsum leik. Unnið er markvisst að verkefnum með aðferðarfræði könnunaraðferðarinnar. 

Leikskólinn vinnur með leikskólalæsi / byrjendalæsi í samstarfi við Heiðarskóla. Leikskólalæsi miðar að því að efla og styrkja læsi barna frá unga aldri. Ekki er verið að einblína á lestur, heldur einnig að þjálfa hlustun, tal og ritun. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýtir undir ímyndunaraflið, hvetur þau til gagnrýninnar hugsunar og gefur þeim færi á að mynda merkingabærar tengingar við eigið líf.

Unnið er með leikskólalæsi með aðferðum könnunaraðferðarinnar þannig að fyrst er valinn gæðatexti sem tengist verkefnavinnu barnanna hverju sinni. Síðan er textinn lesinn oft, orð og orðmyndir skoðaðar, talin atkvæði og hljóð og aukið við orðaforða með samræðu. Unnin eru verkefni upp úr bókinni með ýmsum aðferðum t.d. teikningum, kubbum eða annarskonar listsköpun.

Nánar má lesa um byrjendalæsi hér.

Mikið og gott samstarf er milli leikskólans og grunnskólans og er samstarfið í sífelldri þróun. Elsti árgangur leikskólans fer vikulega í um tveggja mánaða skeið á hvorri önn í heimsókn í grunnskólann eða í menningar- og vettvangsferðir með 1. bekk. Í heimsóknunum fá börnin þjálfun í að fara í skólarútuna, kynnast skólabyggingunni og starfsfólki þar, fara í íþróttahúsið í íþróttir eða sund, æfa sig að klæða sig í og úr og kynnast starfsfólki íþróttahússins. Hefð hefur svo myndast að leikskólabörnin taka þátt í Fullveldishátíð skólans sem haldin er í Heiðarskóla. Þar koma þau fram með 1. bekk og syngja fyrir áhorfendur.

Nemendur úr grunnskólanum koma að heimsækja leikskólann á hverjum vetri. 3. bekkur kemur og les fyrir leikskólabörnin á Degi íslenskrar tungu og 1. bekkur kemur og heimsækir gamla skólann sinn og vini í leikstund einu sinni á hvorri önn.