Regnboginn

Á Regnboganum dvelja að jafnaði 24 börn á aldrinum 3-6 ára.

Deildarnámskrá Regnbogans má finna hér.  

Sjálfsprottinn leikur er í fyrirrúmi og lögð er áhersla á að börnin fái tíma og rými til að leika sér, kanna, uppgötva og endurtaka. Dagskipulag tekur mið af barnahópnum hverju sinni og er það er það sett upp sjónrænt fyrir börnin svo þau sjái hvað er framundan. Mikið er lagt upp úr málörvun þar sem unnið er eftir Handbók Skýjaborgar: Leikur mál og læsi. Börnin fá daglegar vinastundir þar sem áhersla er á málörvun, félagsfærni og hafa gaman. Verið er að efla og auka orðaforða barnanna, hvetja þau til tjáningar og frásagnar, læra boðskiptareglurnar, vekja athygli á ritmáli og gera börnunum grein fyrir tilgangi bókstafa og hljóða. Þetta er meðal annars gert með lestri, spilum og leikjum. Lubbi aðstoðar okkur við að læra málhljóðin, lesa má nánar um Lubba hér

Vikulega er unnið er með vináttu- og forvarnarverkefnið Blær sem er hugsað sem forvörn gegn einelti. Sjá nánar um verkefnið hér. 

Hóparstarf er 1-2x í viku. Í hópastarfi þjálfast börnin í því að taka þátt í verkefnum í hóp og þjálfast í félagslegum leikjum. Börnin fá að kynnast aðferðafræði könnunaraðferðarinnar og fá tækifæri til að vinna verkefni samkvæmt henni. Þetta eru gæðastundir sem börnin eiga með sínum hóp og eflir þau í sköpun og ímyndun.  

Börnin fá vikulegar tónlistarstundir, þar sem tónlist er meðal annars tengd við þema hvers mánaðar. Þemun eru líka fléttuð inn í annað starf á deildinni, eins og söngva, þulur, vinastundir og hópastarf.  

Útivera og útinám er stór hluti af leikskóladeginum. Farið er út á hverjum degi, 1-3 sinnum. Leikið er í garðinum, útieldhúsinu og farið gönguferðir í nærsamfélaginu. Haustið 2024 hófum við innleiðingu vikulegra hreyfistunda. Með þeim erum við að styðja við hreyfiþroska barnanna og leggjum upp með að þær séu í útiveru einu sinni í viku. Þessar stundir eru á byrjunarstigi og í þróun. 

Mikið og gott samstarf er á milli leikskólans og grunnskólans og er samstarfið í sífelldri þróun. Elsti árgangur leikskólans fer vikulega í um tveggja mánaða skeið á hvorri önn í heimsókn í grunnskólann eða menningar- og vettvangsferðir með 1. bekk. Í heimsóknunum fá börnin þjálfun í að fara í skólarútuna, kynnast skólabyggingunni og starfsfólki þar, fara í íþróttahúsið í íþróttir eða sund, æfa sig að klæða sig í og úr og kynnast starfsfólki íþróttahússins. Hefð hefur svo myndast að leikskólabörnin taka þátt í Fullveldishátíð skólans sem haldin er í Heiðarskóla. Þar koma þau fram með 1. bekk og syngja fyrir áhorfendur. 

Nemendur úr grunnskólanum koma að heimsækja leikskólann á hverjum vetri. 3. bekkur kemur og les fyrir leikskólabörnin á Degi íslenskrar tungu og 1. bekkur kemur og heimsækir gamla skólann sinn og vini í leikstund að hausti og er boðið að koma á jólaleiksýningu sem foreldrafélagið býður upp á árlega.