Eldvarnarátak í 3. bekk

Árlegt eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fyrir nemendur í 3. bekk hófst í Heiðarskóla sl. fimmtudag. Bjarni Ingimarsson, formaður LSS, fór yfir sögu átaksins en það hefur verið árlegt í 33 ár. Nú hefur sambandið fengið þau Orra óstöðvandi og Möggu Messí með sér í lið og Bjarni Fritzon rithöfundur hefur samið bók um persónurnar sem fara yfir brunavarnir. Bjarni Fritzon las upp úr bókinni fyrir nemendur skólans og vakti það mikla lukku. Nemendur í 3. bekk fengu bókina að gjöf ásamt bókasafni skólans sem fékk einnig áritað eintak að gjöf. Eftir stutta athöfn var haldin rýmingaræfing í skólanum og gestir, nemendur og starfsmenn fengu í kjölfarið að æfa sig í að slökkva eld, skoða stigabíl, slökkviliðsbíl og sjúkrabíl.