Kanadasamstarf

Í liðinni viku var staddur hér á landi hópur skólafólks frá Alberta í Kanada, 11 nemendur og 9 kennarar og stjórnendur úr 3 skólum. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja og vinna með kennurum og nemendum úr íslenskum samstarfsskólum í svokölluðu ALICE verkefni, sem er alþjóðlegt rannsóknarverkefni um skólastarf. Lagt var upp með að svara spurningunni „Hvernig getur alþjóðlegt samstarf stuðlað að góðum skóla fyrir alla?“ Ásamt okkur í Heiðarskóla tóku þátt í þessari vinnu tveir skólar úr Reykjavík, þ.e. Foldaskóli og Hagaskóli. Mánudaginn 5. nóvember hittist hópurinn á ráðstefnu á Grandhótel þar sem 13 nemendur úr Heiðarskóla unnu ásamt þeim kanadísku og báru saman og sögðu frá sínu skólastarfi. Er óhætt að segja að okkar nemendur hafi staðið sig vel og tekið virkan þátt í samræðum á ensku.
Kanadíski hópurinn fór í skólaheimsóknir í alla þrjá íslensku skólanna og komu til okkar í Heiðarskóla miðvikudaginn 7. nóvember. Ásamt því að kynna sér skólastarfið og skoða skólann okkar var farið með hópinn inn að Bjarteyjarsandi þar sem farið var í fjörunna og fjárhúsin. Gestirnir voru alsælir með Íslandsferðina og þær móttökur sem þau fengu hjá íslenskum gestgjöfum sínum.
Næsta skref í þessu samstarfi er svo áframhaldandi vinna í gegnum netsamskipti og fyrirhuguð ferð íslensku samstarfsskólanna til Kanada í vor.