- Fréttir
- Skólastarfið
- Starfsfólk
- Heiðarskóli
- Skýjaborg
- Foreldrar
- Menntastefna
Í dag fer fram útför Sigurðar Guðmundssonar á Akranesi. Í virðingarskyni er flaggað í hálfa stöng í Heiðarskóla en eins og mörgum er kunnugt var Sigurður fyrsti skólastjóri Heiðarskóla og sinnti því starfi á árunum 1965 – 1988. Sigurður var á margan hátt frumkvöðull í skólastarfi og lagði mikla áherslu á alls kyns útiveru, hreyfingu og borðtennismenning var mikil í Heiðarskóla í hans skólastjóratíð ásamt hressilegum söng og dans og þá sérstaklega þegar skólinn var heimavistarskóli. Margir eiga minningar um daglegar gönguferðir í hvaða veðri sem var og áttu nemendur að fara ákveðið langt en þegar kófið var það mikið að ekki sást til hópsins snéru nemendur við án þess að upp um þá kæmist. Eftir að Sigurður hætti sem skólastjóri sýndi hann Heiðarskóla alltaf mikinn áhuga og velvild. Mætti t.d. reglulega á skemmtanir skólans þar til fyrir stuttu og einnig gaf hann skólanum fjölda trjáplantna fyrir nokkrum árum og við skólann vex nú svokallaður Sigurðarlundur sem á eftir að nýtast nemendum skólans til útináms og útiveru í komandi framtíð. Heiðarskóli vottar afkomendum Sigurðar innilegrar samúðar.