Forvarnar- og menningarferð á Akranes - 3. bekkur

Í dag fóru börnin í 3. bekk ásamt kennara til Akraness og skoðuðu bæði slökkvistöðina og byggðasafnið. 

 

Vel var tekið á móti hópnum á slökkvistöðinni. Slökkviliðsmenn fræddu börnin um brunavarnir á heimilinu og sýndu þeim hvernig reykkafari ber sig að. Slökkvistöðin var skoðuð í krók og kring og þar eru svo sannarlega mörg spennandi tæki. Svo sýndi kennarinn mikinn hetjuskap og slökkti eld með eldvarnarteppi og handslökkvitæki. Við brýnum auðvitað fyrir öllum að skoða brunavarnir á sínu heimili og munu börnin í 3. bekk ekki láta sitt eftir liggja sem öflugir forvarnarfulltrúar.

 

Hópurinn skoðaði síðan Byggðasafnið að Görðum hátt og lágt og var einstaklega skemmtilegt að setjast á gömlu skólabekkina. Við fengum flotta leiðsögn og það eina sem vantaði upp á var meiri tími en þá er líka hægt að heimsækja safnið seinna og skoða það betur með fjölskyldunni.

 

Hópurinn þakkar kærlega fyrir frábærar viðtökur á Akranesi!