Fræðsluerindi í Heiðarskóla

Mánudaginn 14. nóvember mun Hulda Margrét Brynjarsdóttir flytja fræðsluerindi í Heiðarskóla. Erindið hefst kl. 19:30. Eftir erindi Huldu Margrétar mun Katrín Rós Sigvaldadóttir, náms og starfsráðgjafi  Heiðarskóla, vera með stutt innlegg um jákvæð samskipti og forvarnir gegn einelti ásamt því að kynna eineltisáætlun skólans. Fræðsluerindin eru öllum opin, vonumst til að sjá sem flesta. Nánari upplýsingar um erindi Huldu Margrétar má lesa hér:  

Virðingarrík uppeldisfræði eru alls ekki ný af nálinni en eru engu að síður frekar nýleg hér á Íslandi.  Enn er engin viðurkennd fræðsla eða kennsla þess efnis á íslensku en virðingarríkt uppeldi er byggt á RIE fræðunum (Resources for Infant Educarers) sem eiga uppruna sinn í Ungverjalandi eftir seinni heimsstyrjöld.  Upphafskonur fræðanna voru barnalæknarnir Emmi Pikler og Magda Gerber.

Sjálf var ég heimavinnandi í 5 ár, með stelpurnar mínar tvær, aðra frá 0-5 ára og hina frá 0-3ja ára.  Á þessum tíma sótti ég ýmis uppeldisnámskeið í virðingarríkum uppeldisfræðum erlendis og í febrúar 2021 kláraði ég grunnnámskeið hjá The RIE Institute of America.  Eftir að hafa flutt aftur heim til íslands í Ágúst 2021 fannst mér fræðslu um þetta efni afar ábótavant.  Einnig varð ég snemma vitni að miklum fordómum hvað varðaði virðingarríkt uppeldi og heyrði fólk tala um það sem agaleysi og markaleysi.  Mér brá heldur við þessar athugasemdir en það sem ég hef nú þegar lært um þessi fræði eru andstæða við þá fordóma sem virðast ríkjandi.

Uppistaða virðingarríks uppeldis eru staðföst mörk við hæfi og eftirfylgni foreldris.  Börn hafa ekki framheilaþroska til að hafa stjórn á sér og tilfinningum sínum, hugsa rökrétt eða huga að afleiðingum gjörða sinna.  Það er því ekkert mikilvægara en að börn hafi góða, örugga leiðtoga sem aðstoða þau þegar þeim gengur illa - því öll börn gera vel ef þau geta.

Á þessum fyrirlestri færð þú betri innsýn inn í afrakstur þess að notast við virðingarríkt uppeldi.  Þú færð í hendurnar tól sem munu gagnast þér og barninu þínu þannig að ykkur líði vel og að samskipti ykkar einkennist af gagnkvæmri virðingu og virkri hlustun.

Umfram allt er markmiðið með þessum fyrirlestri að þú valdeflist sem foreldri, verðir öruggari í þínu hlutverki og eigir auðveldara með að innleiða aga, þér og barninu þínu til góðs.

Hlakka til að sjá þig! 

Mbk Hulda Margrét Brynjarsdóttir

Stofnandi Leið að uppeldi: þar sem meðvitund, hæglæti og stuðningur leiða í umönnun barna.