Fréttir frá Reykjaskóla

Þessa vikuna dvelja allir tíu nemendur 7. bekkjar ásamt Einari kennara í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði. Þangað var haldið með rútu um kl. 9:30 á mánudagsmorgun en nemendahópur frá Klébergsskóla var samferða norður yfir heiðina. Ferðalagið gekk mjög vel en á fréttamiðlum hafði komið fram að slæm færð væri á Holtavörðuheiði. Það reyndist ekki rétt því rennifæri var á heiðinni og bjart veður. Í Reykjaskóla var komið um kl. 11:30 og eftir að hafa fengið súpu og brauð hófst fyrsta kennslustund vikunnar.

 

Hér í Reykjaskóla eru um 100 krakkar en auk Klébergsskóla koma þeir frá Hólmavík og öllum Vesturlandsskólunum nema Laugagerðisskóla. Öllum hópnum var skipt í þrjá hópa eða bekki en hver hópur þarf að mæta í tvær kennslustundir á dag sem eru um tvær klukkustundir hver. Hápunktur vikunnar er svo fimmtudagurinn. Þann dag er ein kennslustund fyrir hádegi en val eftir hádegi. Eftir það er svo hin fræga hárgreiðslukeppni drengja og diskótek um kvöldið.

 

Veðrið hefur verið ágætt hingað til, snjókoma eða él á köflum en bjart inn á milli. Á föstudaginn er áætluð brottför klukkan 11 þannig að heimkoma ætti að vera um klukkan 13. Vonandi verður þetta góð viðbót í minningabanka krakkanna og eitthvað sem þeir munu minnast sem skemmtilegra daga í Reykjaskóla. Við sendum góðar kveðjur heim héðan úr Hrútafirðinum.