Haustferð miðstigs á Snók

Nemendur miðstigs fóru í fjallgöngu í gær (miðvikudag) ásamt þremur kennurum, þeim Helenu, Helgu og Einari. Eftir að allir höfðu nestað sig upp var haldið í rútu sem skutlaði hópnum upp að Neðra-Skarði en þaðan var gengið upp eftir línuveginum og upp á Snók. Göngufólkið fékk frábært ferðaveður til göngunnar, hitinn hátt í 20 gráður, nánast logn og alveg heiðskýrt. Þegar komið var upp að Snók voru pylsur grillaðar á einnota grilli og runnu þær létt ofan í mannskapinn. Þarna var stoppað í um klukkutíma og krakkarnir nýttu flestir tímann til að kíkja upp á tindinn og njóta útsýnisins yfir sveitina en einnig þurfti að hvíla lúin bein. Síðan var haldið niður og stefnan tekin á Heiðarskóla en þangað var komið um klukkan 14:30. Krakkarnir voru ótrúlega duglegir og margir hafa líklega upplifað sigurtilfinningu, sérstaklega þeir sem voru að fara sína fyrstu fjallgöngu. Semsagt, frábær dagur hjá frábærum hóp í frábæru veðri í fallegasta fjallinu. Komnar myndir í myndaalbúm.