Haustferð yngsta stigs á Akranes

Yngsta stig Heiðarskóla hélt í haustferðina sína miðvikudaginn 24. ágúst. Leiðin lá til Akraness í yndislegu veðri, sól, hita og logni. Fyrsti viðkomustaður okkar var Langisandur og þar var nú aldeilis hægt að leika sér og spennandi að vaða í sjónum. Margir dýrgripir fundust, svo sem krabbar, rækjur og ígulker. Við tímdum varla að yfirgefa ströndina en þó var mikill spenningur fyrir því að ganga á næsta viðkomustað, bókasafnið. Gönguferðin gekk vel og þó var yfir margar umferðargötur að fara. Við notuðum auðvitað tækifærið og æfðum umferðarreglurnar. Á bókasafninu var tekið vel á móti okkur. Ásta, starfsmaður bókasafnsins, kynnti okkur góðar umgengnisreglur á safninu og hvernig gott er að fara með bækur, síðan las hún fyrir okkur sögu og leyfði öllum að skoða sig um á safninu. Síðasti viðkomustaður okkar á Akranesi var skógræktin. Þar máttu allir leika sér og sprella að vild, pylsur voru grillaðar og borðaðar með bestu lyst. Börnin voru kát og dugleg alla ferðina en áreiðanlega þreytt þegar rennt var að Heiðarskóla eftir frábæran dag á Skaganum. Í myndaalbúm eru komnar myndir.