Haustferðadagur miðstigs

Á haustferðadeginum 24. ágúst fóru nemendur miðstigs í Skorradal ásamt nokkrum kennurum. Fyrst var farið í starfsstöð Skógræktar ríkisins að Hvammi. Þar tók aðstoðarskógarvörðurinn Jón Auðunn á móti hópnum, sagði aðeins frá starfseminni og leiddi hann svo í gegnum Stálpastaðaskóg. Á leiðinni var stoppað á nokkrum stöðum þar sem Jón Auðunn sýndi krökkunum alls konar og merkileg tré. Nesti var svo borðað við gömlu fjóshlöðuna á Stálpastöðum. Því næst var ekið yfir að skátaskálanum þar sem krakkarnir gátu leikið sér. Einhverjir prófuðu hitastigið á vatninu en einnig voru nokkrir með veiðistöng og renndu fyrir fisk sem reyndar gekk ekki sem skyldi þar sem enginn fiskurinn lét sjá sig. Enginn lét það þó á sig fá og höfðu bara gaman af því að prófa að kasta. Kennarar grilluðu pylsur á pallinum við skátaskálann en þær runnu ljúft í svanga maga. Blíðskaparveður var í Skorradal þennan dag, sólskin á köflum og hægur vindur, mjög góður dagur. Myndir frá deginum eru komnar í myndaalbúm.