Hrekkjavaka í Heiðarskóla

Á föstudaginn var hrekkjavökudagur í Heiðarskóla og þeir sem vildu máttu mæta í búningi. Alls kyns kynjaverur mættu í skólann og ekki annað að sjá en börnin væru að njóta sín á óhefðbundnum skóladegi þar sem hvert og eitt stig bauð upp á ýmis uppábrot á skóladeginum. Yngsta stigið var t.a.m. með samverustund með öllum í Heiðarborg, miðstigið bauð upp á bíó og hver og einn mátti taka með sér nammi og unglingastigið fékk val um óhefðbundin verkefni. Hrekkjavökusamsöngur var rétt fyrir hádegisverð og á meðfylgjandi mynd má sjá aðstoðarsöngvara úr 1. bekk stýra söng á viðburðinum. Þess ber að geta að unglingar stóðu sig með afbrigðum vel á söngstundinni og tóku vel undir.