- Fréttir
- Skólastarfið
- Starfsfólk
- Heiðarskóli
- Skýjaborg
- Foreldrar
- Menntastefna
Í dag var kakósúpa með matarkexi í eftirrétt í hádeginu í Heiðarskóla. Ástæðan er sú að í nóvember tóku nemendur skólans þátt í matarsóunarverkefni. Matarleifar eftir morgun- og hádegisverð voru vigtaðar í eina viku án þess að börnin vissu af því og niðurstaðan var sú að leifarnar urðu 12.405 g. Vikuna á eftir var verkefnið kynnt fyrir nemendum og þeir hvattir til að fá sér hæfilega mikið á diskinn og fara frekar aftur ef þörf væri á. Aftur voru matarleifar vigtaðar og í seinni vikunni leifðu börnin 9.600 g. Þau stóðu sig sem sagt betur í seinni vikunni og í verðlaun fengu þau kakósúpu í eftirrétt í dag. Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra nemendur á miðstigi gæða sér á súpunni góðu sem að sjálfsögðu vakti mikla lukku.