Líf í Hvalfjarðarsveit - þemaverkefni á yngsta stigi

Líf í Hvalfjarðarsveit er yfirheiti á verkefni sem yngsta stigið hefur unnið að síðastliðnar vikur. Verkefnið hefur það að markmiði að nemendur kynnist sveitarfélaginu sínu, sögu þess, helstu kennileitum, stofnunum og daglegu lífi íbúa. Víða hefur verið leitað fanga, t.d vildu nemendur fræðast um hvaða tillögur voru að nafni á sameinað sveitarfélag þegar Hvalfjarðarsveit varð til, vita af hverju fjörðurinn heitir Hvalfjörður og af hverju ýmis fjöll og dalir bera nöfn. Einnig vildu þau við vita hvað fólk vinnur í sveitinni og hvaða fyrirtæki eru hér. Við vorum svo heppin að fá heimboð í stjórnsýsluhús Hvalfjarðarsveitar í Melahverfinu og fá kynningu á starfssemi sveitastjórnar og starfsmanna stjórnsýslunnar. Á móti okkur tóku nokkrir fulltrúar úr sveitarstjórninni og fóru yfir ýmis fundarsköp eins og t.d. með hvaða hætti ákvarðanir eru teknar ef ekki eru allir sammála. Börnin fengu svo að æfa sig í að koma upp í pontu, leggja fram tillögu og greiða atkvæði. T.d. var greitt atkvæði um hvers konar ís ætti helst að vera í eftirrétt. Að heimsókn lokinni fengu svo allir ís sem vakti að sjálfsögðu mikla lukku.