Lokahátíð Stóru upplestarkeppninnar á Vesturlandi

Í dag var lokahátíð Stóru upplestrarkeppni samstarfsskólanna á Vesturlandi haldin í Heiðarskóla. Níu fulltrúar frá Grunnskólanum í Borgarnesi, Auðarskóla, Heiðarskóla og Grunnskóla Borgarfjarðar tóku þátt. Segja má að allir þátttakendur hafi verið sigurvegarar því allir höfðu æft vandaðan upplestur og lagt mikið á sig til að gera sitt allra besta. Dómnefnd var skipuð Hjördísi Hjartardóttur, grunnskólakennara frá Akranesi, Ingibjörgu Einarsdóttur, formanni Radda og Björk Einisdóttur varaformanni Radda. Raddir eru samtök um vandaðan upplestur og framsögn og veita skólum ómældan stuðning við þetta mikilvæga verkefni í gegnum Stóru upplestrarkeppnina. Dómnefndin veitti öllum þátttakendum viðurkenningu fyrir þátttöku, ljóðabók eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Dómnefndin tilkynnti jafnframt eftirfarandi úrslit í keppninni: Í þriðja sæti var Sólbjört Tinna Cornette frá Auðarskóla, í öðru sæti Helga Rún Hilmarsdóttir frá Auðarskóla og í fyrsta sæti var Ingibjörg Þórðardóttir frá Grunnskóla Borgarfjarðar. Heiðarskóli óskar sigurvegurum og öllum þátttakendum til hamingju með árangurinn og framfarir í upplestri. Jafnframt þakkar skólinn fyrir ánægjulega samverustund í dag. Í myndaalbúm skólans eru komnar myndir frá hátíðinni.