Minningarorð um Einar Darra Óskarsson

Í dag er borinn til grafar fyrrverandi nemandi okkar og vinur Einar Darri Óskarsson sem í blóma lífsins var tekinn frá okkur alltof snemma. Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst þessum skemmtilega og ljúfa dreng og notið samveru hans þau 7 ár sem hann stundaði nám hjá okkur. Einar Darri hóf nám við Heiðarskóla í 3. bekk haustið 2008 en færði sig um set eftir 9. bekk vorið 2015. Til þessa tíma lítum við nú með söknuði en jafnframt mikilli gleði. Einar Darri var einstaklega hæfileikaríkur og einkar vinsæll meðal samnemenda sinna sem litu upp til hans og báru til hans traust því hann var sannur vinur vina sinna. Hann var þroskaður, alla tíð trúr sjálfum sér og rökfastur. Til marks um það munum við eftir mörgum rökræðum þar sem Einar Darri sagði skoðanir sínar og varði þær svo með rökum sem oft reyndist erfitt að hrekja. Minningarnar um Einar Darra munu lifa í Heiðarskóla um ókomna tíð, minningar sem okkur þykir óendanlega vænt um. Við vottum fjölskyldu Einars Darra okkar dýpstu samúð.

Starfsfólk Heiðarskóla