Nemendur 7. bekkjar í skólabúðum á Reykjum í Hrútafirði

Þessa viku eru nemendur 7. bekkjar staddir í Reykjaskóla í Hrútafirði ásamt Einari kennara sínum. Þar munu þau fást við ýmiskonar leiki og störf ásamt krökkum úr Borgarnesi, Dölunum, Laugargerði, Klébergsskóla og Breiðholtsskóla. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna náttúrufræði,  sögu, fjármálafræðslu, íþróttir og sund. Það er hið besta veður við Hrútafjörðinn í dag (miðvikudag), hiti um frostmark, léttskýjað og logn. Á morgun verður hin víðfræga hárgreiðslukeppni drengja haldin og þar á Heiðarskóli að sjálfsögðu keppanda. Hann hefur safnað bæði hári og nöglum sérstaklega fyrir þessa keppni og hlýtur að vera sigurstranglegur. Annars er vel hugsað um gesti hér, endalausir matar- og kaffitímar, og gestrisnir gestgjafar. Krakkarnir eru hressir, duglegir að vakna á morgnana og duglegir að mæta á réttum tíma hvar sem þau eiga að vera. Sæluvikunni lýkur svo á föstudaginn en áætlað er að 7. bekkingarnir komi í Heiðarskóla rétt eftir hádegi.