Sveitaferð - Leirárgarðar

Börnin í 1.-3. bekk fóru í skemmtilega sveitaferð í dag. Þau fóru gangandi því að frá Heiðarskóla er nú ekki langt í sveitasæluna. Andrea á Leirárgörðum tók vel á móti börnunum og sýndi þeim mjólkurróbóta og risastóran bursta fyrir kýrnar. Þarna var líka nýborinn kálfur og sjálfvirkt tæki var að hreinsa flórinn. Allt var þetta áhugavert og skemmtilegt að skoða. Áður en haldið var í fjárhúsið bauð Andrea öllum upp á súkkulaði sem var skolað niður með ískaldri mjólk úr mjólkurtankinum. Veitingunum voru að sjálfsögðu gerð góð skil. Í fjárhúsinu fylgdust börnin með einni ánni bera, þau fengu að halda á lömbum og sjá þegar þeim var gefinn peli. Fjárhundurinn leyfði öllum að klappa sér og svo var hægt að klifra upp og renna sér niður af heyrúllu. Að lokum skrifuðu allir í gestabók og léku sér í traktorum sem búið var að leggja á hlaðinu.

 

Þetta var yndisleg ferð í ljómandi góðu veðri. Við þökkum Andreu og öllum á Leirárgörðum fyrir móttökurnar og samveruna.