Þemavika

Nú er nýafstaðin vel heppnuð þemavika sem tengist grænfánavinnu skólans. Að þessu sinni var yfirskriftin Lýðheilsa eða "Heilsa yfir höfuð" eins og börnin í umhverfisnefnd vildu nefna þemað. Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið? Þetta eru spurningar sem við veltum fyrir okkur í þemavikunni. Börnin unnu spennandi verkefni í stöðvavinnu í aldursblönduðum hópum. Verkefnin tengdust geðrækt, hreyfingu, hollum bita, slökun og hreyfingu en eins og allir vita hafa þessir þættir góð áhrif á heilsuna. Í myndaalbúm skólans eru komnar myndir frá þemavinnunni. 

En af hverju lýðheilsa, hvernig tengist hún sjálfbærni? Á heimasíðu Landverndar má m.a. finna eftirfarandi:

"Sjálfbærni og lýðheilsa eru nátengd fyrirbæri en líkt og sjálfbærni tekur lýðheilsa til félags- , umhverfis- og efnahagsþátta sem tengjast velferð einstaklinga í samfélaginu. Þar sem sjálfbærni snýst um velferð og vellíðan allra Jarðarbúa má sjá að án virkrar lýðheilsu, þ.e. heilsuverndar og forvarna, er tæplega hægt að ná fram sjálfbærni. . Flest það sem er gott fyrir okkur er gott fyrir umhverfið . Því má bæta við að flest það sem er gott fyrir okkur sjálf er líka gott fyrir umhverfið. Hreyfing er góð fyrir líkamann en það er líka gott fyrir umhverfið ef við komum okkur gangandi og hjólandi á milli staða í stað þess að nota farartæki sem brenna jarðefnaeldsneyti. Að borða mat sem framleiddur er í nánasta umhverfi án eiturefna og ofgnóttar tilbúins áburðar er hollt fyrir okkur sjálf og gott fyrir umhverfið. Að minnka kjötneyslu er bæði gott fyrir heilsu okkar og umhverfið. Andleg vellíðan er grundvallaratriði góðrar heilsu okkar sjálfra en er einnig mikilvæg fyrir það umhverfi og samfélag sem við búum í, enda minni líkur á að við vinnum umhverfi og samfélagi spjöll ef við erum í góðu andlegu jafnvægi."