Árg. 2012 vann smásagnakeppni KÍ, Heimilis og skóla og Samtaka móðurmálskennara

Börn í árgangi 2012 í Skýjaborg unnu smásagnakeppni KÍ, Heimilis og skóla og Samtaka móðurmálskennara í flokki leikskólabarna í ár, með söguna Kennarinn með blað í fanginu sínu. Af því tilefni fóru þau í dag til Reykjavíkur í Hörpuna að fá verðlaun afhent. Börnin fengu innrammað viðurkenningarskjal, Kindle lestölvu og stóran blómvönd.

Þetta var mikið ferðalag fyrir 5 ára börn. Börnin voru mjög spennt áður en lagt var í hann og að vonum ánægð með daginn, þó þreyta hafi verið farin að sjást í öllum þessum myndatökum. Farið var með skólarútunni hans Sverris áleiðis að Hörpunni. Eftir verðlaunaafhendinguna gengu börnin niður að Reykjavíkurtjörn þar sem fuglarnir voru skoðaðir í góða veðrinu. Það vakti athygli barnanna hvað svanirnir voru stórir. Rútan beið svo við Ráðhúsið.

Það var mjög margt að sjá bæði í rútunni á leiðinni, út um gluggana á Hörpunni og í göngutúrnum. Fjöldinn allur af byggingarkrönum í miðborg Reykjavíkur vakti mikla athygli. Við vonum að börnin séu stolt af sínum árangri og verðlaunin séu hvatning fyrir þau til að halda áfram að semja. Það getur nefnilega verið mjög gaman að búa til sögur og fá fullorðin til að hjálpa sér að skrifa.

Hér kemur smásagan þeirra:

 

Kennarinn með blað í fanginu sínu

Kennarar eiga að segja börnunum að sitja kjurr og það má ekki rífa bók og segja krökkunum að fara ekki ofaní skurð. Að það megi bara hjóla með hjálm. Það er bannað að ganga yfir þegar það eru bílar að fara af stað. Krakkar mega ekki fara sjálfir í göngutúr og ekki fara burt. Kennarar eiga að passa krakkana. Kennarinn passar krakkana þegar þau fara yfir götuna. Góður kennari er brosandi og talar ekki svona hátt. Þeir passa krakkana svo þeir hlaupi ekki burtu í skóginn.

Samið af árgangi 2012 í Leikskólanum Skýjaborg Hvalfjarðarsveit ágúst 2017.