Dagur umhverfisins 25. apríl

Dagur umhverfisins er 25. apríl. Þá er venjan hjá okkur í Skýjaborg að fara út fyrir skólalóðina að plokka rusl í nærumhverfinu. 

Dagurinn byrjaði á hópatíma hjá eiturslöngu-hópi elsta árgangi leikskólans þar sem rætt var hvað er lífrænt og brotnar niður í umhverfinu og hvað brotnar ekki niður. Eitt barn sagði frá því að það hefði séð mikið rusl á Háamel. Fleiri börn tóku undir og því var stefnan tekin þangað að plokka. Einnig kom upp umræða frá börnunum að gaman væri að sjá hvað breytist í mold. Því var ákveðið að gera tilraun í vettvangsferðinni og grafa annars vegar bananahýði og hins vegar plast sem fannst. Börnin ákváðu að merkja gróður-svæðið með steinum og töldu skref frá nærliggjandi tré. Þau ætla svo að vitja tilraunarinnar fyrir sumarfrí. 

Mikið rusl fannst á svæðinu og tóku öll vel til hendinni að gera umhverfið hreinna og snyrtilegra. Til að gera ferðina enn skemmtilegri var nesti og vatnsbrúsar teknir með og borðað úti í móa.  

Þegar heim var komið hjálpuðust öll að við að flokka ruslið í viðeigandi tunnu.