Opið hús fyrir eldri borgara

Í gær buðum við eldri borgurum í sveitinni á opið hús í leikskólanum frá 14:00-16:00. Það var góð mæting og mættu rúmlega 20 manns til okkar. Í upphafi var Eyrún sviðsstjóri með smá tölu og sagði frá skólastarfinu. Gestirnir gengu svo um og skoðuðu skólann og þau listaverk barnanna sem hanga hér á víð og dreifð. Við sameinuðumst svo á yngri deildinni, Dropanum, þar sem börnin héldu tónlistarstund, spiluðu á hristur og sungu aðeins með. Það var feimni í litlu ungunum okkar svo ekki heyrðist mikið í þeim en þau hristu hristurnar. Að því loknu buðum við gestunum að drekka með okkur nónhressingu, við buðum upp á brauð, álegg, heimabakaða jólaköku og kaffi. Við létum spjaldtölvur ganga og sýndum gestunum myndir úr skólastarfinu. Eftir kaffið söfnuðumst við inni á eldri deildinni, Regnboganum, þar sem börnin þar sungu tvö lög hátt og skýrt.

Þetta var skemmtilegur dagur og þökkum við gestunum kærlega fyrir komuna. Verið velkomin aftur!  

Myndir eru komnar á myndasíðuna okkar.