Afmæli Heiðarskóla 9. nóvember

Í dag eru nákvæmlega 50 ár frá því að skólinn tók til starfa en það var einmitt 9. nóvember árið 1965 sem fyrsti skólabíllinn renndi í hlað með fyrstu nemendur skólans. Af því tilefni var haldin opnunarhátíð afmælisársins í Heiðarskóla. Í hádeginu var boðið upp á lambalæri og eftir hádegi var hátíðardagskrá í sal skólans. Fjölmennt var á hátíðinni og ýmislegt gert til að minnast þessara tímamótum. Einar Sigurðsson, fyrrverandi nemandi skólans og núverandi starfsmaður, flutti erindi þar sem meðal annars var komið inn á sögu skólans. Marteinn Njálsson ræddi um mikilvægi þess að varðveita söguna og færði skólanum gamlan skólastól  frá tímum farskólans að gjöf. Fyrir hönd sveitarfélagsins færði Daníel Ottesen, sveitarstjórnarmaður og formaður Fræðslu og skólanefndar, skólanum gjafabréf fyrir þrívíddarprentara. Börnin í 1. - 4. bekk sungu afmælissönginn, Hrönn Eyjólfsdóttir og Ester Elfa Snorradóttir sungu lag, Örn Arnarson kynnti niðurstöður könnunar sem hann framkvæmdi nú í vor meðal útskrifaðra nemenda, gamlar myndir voru sýndar og að lokum var boðið upp á afmælistertu. Í myndaalbúm eru komnar myndir frá hátíðinni og fyrir áhugasama má benda á frétt á heimasíðunni þar sem saga skólans er rakin í grófum dráttum. Fyrirhugað er að gera afmælinu góð skil á skólaárinu.