Afmælishátíð Heiðarskóla

Í gær var haldið upp á afmæli Heiðarskóla en fyrstu nemendur skólans mættu einmitt í hús þann 9. nóvember 1965 og skólinn því 60 ára. Fjölmargir gestir á öllum aldri mættu á hátíðina og áttu saman notalega stund með öðrum gestum, nemendum og starfsmönnum.

Nemendur fluttu Heiðó lagið sem vakti mikla lukku áhorfenda. Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar flutti ávarp og fór fallegum orðum um skólastarf í Hvalfjarðarsveit ásamt því að gefa skólanum pönnuvöll og blómvönd í afmælisgjöf. Færum við Hvalfjarðarsveit bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf sem á eflaust eftir að gleðja nemendur skólans og aðra. 

Þar á eftir sögðu 6 fyrrverandi nemendur skólans frá sinni skólagöngu. Það voru þau Petrína Ottesen, Einar Sigurðsson, Einar Karl Birgisson, Sólveig Jónsdóttir, Logi Örn Ingvarsson og Ástdís Birta Björgvinsdóttir. Nemendaferðir, samheldni, frelsi, náttúran og mötuneytið voru þeim ofarlega í huga og var mikil unun að hlíða á þeirra skemmtilegu minningar. Færum við þeim öllum bestu þakkir fyrir hlý og falleg orð í garð skólans. 

Í hádegisverð var boðið upp á dýrindis kjúklingasúpu og afmælisköku og að lokum flutti Emmsjé Gauti nokkur lög við mikinn fögnuð áhorfenda. 

Heiðarskóli þakkar öllum sem sáu sér fært að fagna með okkur þessum mikilvægu tímamótum innilega fyrir komuna.