- Fréttir
- Skólastarfið
- Starfsfólk
- Heiðarskóli
- Skýjaborg
- Foreldrar
- Menntastefna
Í dag héldum við Master Chef keppni í heimilisfræðivali í unglingadeild. Þemað var fiskur og máttu nemendur velja sér 5-6 hráefni til að vinna með auk fisks, olíu/smjörs og meðlætis. Nemendur skiptu sér í 5 hópa og fengu þau takmarkaðan tíma til að elda. Þau þurftu svo að setja réttinn fallega fram og voru 5 dómarar sem dæmdu á milli réttanna. Tekið skal fram að dómararnir vissu ekki hver eldaði hvaða rétt. Valinn var „Fallegasti rétturinn“, „Frumlegasti rétturinn“ og „Besti rétturinn“. Réttirnir sem hægt var að velja á milli voru fjölbreyttir og ljóst var að valið yrði erfitt. Hóparnir fengu númer frá 1-5 og með fylgdi smá útskýring á því hvað væri í réttinum. Nr. 1 var „Steikt ýsa með brokkolí, steiktum lauk, grilluðum kartöflum og sítrónusafa“. Nr.2 var „McDonalds special.“ Nr. 3 var „Ertu steiktur! Steiktur fiskur með steiktu grænmeti.“ Nr. 4 var Pasta fiskréttur með Chillí og nr. 5 var „Steiktur fiskur með rjómasósu og hrísgrjónum.“ Allt ferlið var síðan tekið upp á ipad og til stendur að búa til þátt um keppnina sem verður vonandi aðgengilegur fljótlega. Eftir að dómararnir höfðu lokið sínum störfum fékk annað starfsfólk og nemendur að smakka á réttunum og velja sitt uppáhald og hlaut sá réttur sem fékk flestu atkvæðin í þeirri atkvæðagreiðslu titilinn „Val fólksins“. Óhætt er að segja að mikill metnaður hafi verið lagður í matseldina og samkeppnin hörð. Úrslit urðu þau að besti rétturinn var valinn réttur nr. 3 og í öðru sæti var réttur nr. 1. Sá réttur sem hlaut titilinn „Val fólksins“ var réttur nr. 4. Mikil stemning var í skólanum vegna þessa atburðar og margir sem smökkuðu réttina og gáfu einkunn. Ummæli dómnefndar voru m.a. þau að það væri greinilegt að nemendur höfðu lagt sig alla fram og að svona keppni mætti endilega vera oftar – og það verður alveg örugglega gert
Heiðarskóli 301 Akranes Aðalnúmer: 433 8525 Netfang: heidarskoli@hvalfjardarsveit.is |
Skýjaborg Innrimel 1 | 301 Akranes Aðalnúmer: 433 8530 Netfang: skyjaborg@hvalfjardarsveit.is |