Ingibjörg Melkorka

Í dag er borin til grafar fyrrverandi nemandi okkar og vinkona Ingibjörg Melkorka sem átti allt lífið framundan en var tekin frá okkur allt of snemma. Eftir sitjum við í sorg og eftirsjá en um leið þakklát yfir því að hafa kynnst henni og fengið að njóta samvista við hana í fjögur ár. Ingibjörg hóf nám í 7. bekk við Heiðarskóla haustið 2010 og útskrifaðist úr 10. bekk vorið 2014. Á þessum tíma fengum við að sjá hversu marga og góða mannkosti hún hafði til að bera. Hún var mikill skörungur, vel lesin, skapandi, þrautseig og ráðagóð. Sérstaklega er okkur minnisstætt þegar hún fór með skólafélögum sínum í gönguferð yfir Akrafjall. Hún lenti í einhverjum vandræðum með annan skóinn en lét það ekki stoppa sig heldur gekk fyrir fjallið á einum skó án þess að kvarta. Margir af yngri nemendum leituðu til hennar því í henni fundu þeir hlýju og umhyggju. Jafnaldrar hennar gátu einnig leitað til hennar því hún var góður vinur vina sinna og gat veitt þeim bæði stuðning og góð ráð. Þetta er aðeins lítið brot af því sem við gætum sagt um Ingibjörgu en lýsir því á nokkurn hátt hvernig persóna hún var. Þó að lífið hafi ekki alltaf verið dans á rósum munu góðar minningar lifa, minningar sem okkur þykir mjög vænt um.

Starfsfólk Heiðarskóla