- Fréttir
- Skólastarfið
- Starfsfólk
- Heiðarskóli
- Skýjaborg
- Foreldrar
- Menntastefna
Örn Arnarson kennari við Heiðarskóla gerði nýlega könnun meðal útskrifaðra nemenda sinna (útskriftarhópar 2002-2015). Niðurstöður könnunarinnar eru komnar inn á heimasíðuna undir liðnum Skólastarfið - Kannanir.
/sites/default/files/k%C3%B6nnun_1.pdf
Skólastarf er margslungið og margir aðilar koma að því með ólíku móti og þar af leiðir að margir hafa mikilla hagsmuna að gæta. Gæði skólastarfsins er mikilvægasti þáttur þess og því er eðlilegt að það sé metið með reglubundnum og fjölbreyttum hætti. Á Íslandi hefur því miður skapast sú menning að árangur á samræmdum prófum sé besti mælikvarðinn á gæði starfs í grunnskólum. Ég segi “því miður” vegna þess að eftir 15 ár sem kennari veit ég að svo er ekki. Vissulega geta samræmd próf gefið mikilvægar vísbendingar um námslega stöðu nemenda í ákveðnum námsgreinum en þau mæla ekki vinnubrögð, vinnusemi, sjálfstæði, ábyrgð og margt annað sem nemendur geta búið yfir og verður þeim gott veganesti út í lífið.
Það voru ekki síst þessir annmarkar sem urðu mér hvatning til að finna nýjan mælikvarða á gæði skólastarfsins í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit. Ég einsetti mér að hafa upp á öllum þeim nemendum sem lokið hafa námi við skólann frá árinu 2001, árið sem ég hóf störf. Óhætt er að segja að þessir fyrrum nemendur okkar hafi brugðist vel við og alls svöruðu 111 nemendur könnun sem ég lagði fyrir þá. Í þessari grein langar mig að rekja helstu niðurstöður.
Frekari menntun.
Eitt af því sem ég vildi kanna var hvaða menntun þessir fyrrum nemendur mínir hafa náð sér í frá útskrift úr Heiðarskóla, hvernig þeim hafi gengið og hversu vel þeir töldu að Heiðarskóli hefði búið þá undir frekara nám. Í ljós kom að rúm 60% höfðu annað hvort lokið stúdentsprófi eða hafið nám til stúdentsprófs. Önnur 27% höfðu lokið sveinsprófi í iðn eða hafið nám til sveinsprófs. Rúm 18% höfðu lokið Bachelors gráðu og 5% mastersnámi. Sérstaka athygli mína vakti hátt hlutfall þeirra sem tekið hafa vinnuvélapróf eða tæp 30%. Einungis 6% nemendanna hættu námi eftir lok grunnskóla en 14% höfðu lokið við aðra menntun en þegar hefur verið nefnd, t.d. atvinnuflugmannsréttindi og snyrtifræði.
Þegar spurt var hvort nemendur hyggðust fara í frekara nám kom í ljós að yfir 33% stefna á að ljúka mastersnámi og tæp 10% doktorsnámi. Auk þess stefna rúm 26% á að ljúka Bachelorsgráðu í framtíðinni.
Þegar spurt var hversu vel nemendum hefði gengið í námi eftir lok grunnskóla var svörunin þannig að tæp 70% hafði gengið vel eða mjög vel. Að lokum var spurt hversu vel Heiðarskóli hefði búið nemendur undir frekara nám. Við því svöruðu tæp 60% að skólinn hefði gert það vel eða mjög vel.
Lífsviðhorf og velgengni.
Ánægja með lífið er mikil hjá útskrifuðum nemendum úr Heiðarskóla. Yfir 81% þeirra segjast vera hamingjusamir eða mjög hamingjusamir. Til samanburðar þá segjast 66% Íslendinga vera ánægðir með líf sitt í alþjóðlegri könnun sem Capacent hefur gert. Sama hlutfall fyrrum nemenda Heiðarskóla segist njóta frekar eða mikillar velgengni í lífinu.
Einnig voru nemendur spurðir um sjálfstæði, ábyrgð og áreiðanleika. Um 85% sögðust vera frekar eða mjög sjálfstæðir, tæp 90% telja sig vera frekar eða mjög ábyrga og heil 97% segjast vera frekar eða mjög áreiðanlegir. Þetta eru tölur sem mælast ekki í samræmdum prófum.
Að lokum var spurt hversu vel nemendum hefði gengið almennt síðan þeir útskrifuðust úr Heiðarskóla. Alls sögðu rúm 87% að þeim hefði gengið frekar eða mjög vel og sérstaka athygli vekur að enginn segist hafa gengið frekar eða mjög illa.
Heiðarskóli er í góðum metum
Að lokum kom kafli í könnuninni þar sem nemendur lögðu mat á skólann frá ýmsum hliðum. Þar kom fram að 70% svarenda töldu skólann hafa búið sig frekar eða mjög vel undir lífið, rúm 23% sögðu hann hafa hvorki undirbúið sig vel né illa, en 5,3% sögðu hann hafa undirbúið sig frekar illa undir lífið. Til samanburðar var spurt hversu vel nemendur teldu að skólinn hefði búið þá undir frekara nám svöruðu þeir þannig að tæp 60% sögðu hann hafa gert það frekar eða mjög vel, 23,7% voru hlutlausir en tæp 17% sögðu hann hafa gert það frekar eða mjög illa. Það er vissulega áhyggjuefni og þess virði að skoðað sé betur en þess ber þó að geta að nemendur útskrifaðir 2011-2014 gáfu þessum lið hærri einkunn en fyrri hópar.
Þegar athyglinni var beint að því hversu góðan nemendur telja Heiðarskóla samanborið við aðra skóla kom í ljós að tæp 69% telja hann frekar eða mjög góðan í þeim samanburði, um fjórðungur telur hann svipaðan og aðra skóla á meðan um 6% telja hann slakari en aðra skóla.
Að lokum voru nemendur beðnir að leggja mat á það hversu vel skólinn mætti þörfum þeirra í námi. Tæp 68% töldu hann hafa mætt þeim þörfum frekar eða mjög vel, tæp 16% voru hlutlaus en tæp 17% sögðu hann hafa mætt þörfum þeirra frekar eða mjög illa. Hér er þó vert að taka fram að nemendur útskrifaðir 2011-2014 svöruðu þessu þannig að 80% sögðu skólann hafa mætt þörfum þeirra frekar eða mjög vel, 9,7% voru hlutlausir og 9,7% sögðu hann hafa gert það frekar illa. Þetta bendir til þess að hér hafi verið gerð mikil bragarbót enda er einstaklingsmiðun orðin mun meiri en áður var.
Að lokum: Nemendur er jákvæðir í garð skólans.
Heilt yfir kemur skólinn mjög vel út úr þessari könnun meðal fyrrum nemenda sinna. Við áðurnefnt má bæta að 79% þeirra sem svöruðu sögðust vera frekar eða mjög stoltir af því að hafa gengið í Heiðarskóla og rúm 81% sögðust vera frekar eða mjög jákvæðir í garð skólans. Tæpum 70% þeirra hefur gengið frekar eða mjög vel í námi síðan þeir útskrifuðust.
Heiðarskóli hefur gengið í gegnum gríðarlegar breytingar frá því ég hóf hér störf. Einstaklingsmiðað nám er nú alls ráðandi, agi er mun betri og það þakka ég að stórum hluta Uppbyggingarstefnunni sem hefur hjálpað nemendum að temja sér meiri sjálfsaga. Metnaðurinn er mikill í Heiðarskóla, ekki bara metnaður til að búa til sterka námsmenn heldur ekki síður að hjálpa nemendum að verða sterkir, sjálfstæðir einstaklingar sem geta tekist á við líf sitt hvaða leið sem þeir velja í því.
Að lokum vil ég draga saman það sem þessi könnun hefur sagt mér og styrkt mig í þeirri trú sem ég hef alltaf haft:
Heiðarskóli er góður skóli!
Heiðarskóli 301 Akranes Aðalnúmer: 433 8525 Netfang: heidarskoli@hvalfjardarsveit.is |
Skýjaborg Innrimel 1 | 301 Akranes Aðalnúmer: 433 8530 Netfang: skyjaborg@hvalfjardarsveit.is |