Fréttir frá 7. bekk, Sunnevu og Einari

Þessa vikuna er 7. bekkur staddur í skólabúðunum í Reykjaskóla við Hrútafjörð ásamt Sunnevu og Einari. Ferðalagið norður gekk eins og í sögu en við vorum samferða hópum frá Klébergsskóla og Waldorfskóla. Vegir voru nánast auðir og við vorum komin í Reykjaskóla um kl. 11. Brauð og súpa í hádeginu og síðan fundaði Kalli skólastjóri með krökkunum og lagði með þeim línurnar. Eftir það byrjaði dagskrá vikunnar formlega samkvæmt stundaskrá og hefur gengið mjög vel síðan. Krakkarnir eru búnir að standa sig vel og hafa verið mjög sjálfstæðir í því að mæta á réttum tíma í matsal og kennslustundir en mikið er lagt upp úr stundvísi. Eins hefur gengið mjög vel að vakna á morgnana og því má segja að allt gangi samkvæmt áætlun. Kennslu lýkur svo á hádegi á morgun, fimmtudag, en eftir það er valtími. Krakkarnir hafa þá val um nokkrar stöðvar eins og íþróttahús, sundlaug, borðtennismót, bíómynd og föndur. Eftir það hefst undirbúningur fyrir hárgreiðslukeppni drengja og svo er slegið upp balli um kvöldið. Áætluð heimkoma er laust eftir hádegi á föstudag eða fyrir hefðbundna heimkeyrslu frá Heiðarskóla.

Bestu kveðjur úr Reykjaskóla,
Sunneva og Einar