Skoðunarferð á framkvæmdasvæðið við Heiðarborg

Sl. fimmtudag var nemendum og starfsmönnum Heiðarskóla boðið í skoðunarferð á framkvæmdasvæðið við Heiðarborg. Skemmst er frá því að segja að nemendur í 1. – 4. bekk urðu mjög hissa þegar þeir sáu hversu stór nýi íþróttasalurinn er. Hópurinn gaf frá sér furðuhljóð og hóf strax að hlaupa um allt. 

Eldri nemendur skólans spurðu mikið út í hvenær viðbyggingin yrði tilbúin. Eftir því sem við best vitum á framkvæmdum að ljúka í ágúst 2026 og því má reikna með að íþróttakennsla í Heiðarskóla fari fram í nýja salnum frá og með næsta skólaári. Nemendum í 10. bekk fannst það frekar súrt og spurðu af hverju það hefði ekki verið byrjað ári fyrr á verkefninu. En öllum leist mjög vel á og bíða spenntir eftir nýju íþróttamiðstöðinni.

Á meðfylgjandi myndum má sjá nemendur á yngsta stigi í nýja salnum.