Survivor dagur í Heiðarskóla

Föstudaginn 20. maí fór skólastarf Heiðarskóla fram í Álfholtsskógi á svokölluðum Survivordegi.  Nemendum var skipt í aldursblandaða hópa sem héldu undirbúningsfundi fyrir daginn. Hlutverk hópanna var að hanna eitthvað sem flýtur, velja sér nafn og útbúa gullpinnaatriði. Liðin sem mættu til leiks á Survivordaginn voru Maríubjöllur, Greenwood, Álfarnir, Bleiku kanínurnar, Mosarnir, Skógarbirnirnir og Fíflarnir. Byrjað var á morgunverði við Furuhlíð og síðan hófst ratleikur sem stóð fram að hádegismat, grilluðum hamborgurum. Eftir hádegisverð sýndu liðin hlutinn sem nemendur hönnuðu og gullpinnaatriðin sín. Nemendur stóðu sig mjög vel og dagurinn var í alla staði vel heppnaður fyrir utan að töluverð fluga var á svæðinu og margir með mýbit eftir daginn. Survivorhópur 2022 var kynntur í lok dags en það voru Skógabirnirnir sem hlutu þann heiður.