- Fréttir
- Skólastarfið
- Starfsfólk
- Heiðarskóli
- Skýjaborg
- Foreldrar
- Menntastefna
Saga leikskólans
Leikskóli í Fannahlíð var formlega stofnaður 8. desember 1996 af þeim hreppum sem síðar sameinuðust í Hvalfjarðarsveit. Fljótlega eftir stofnunina var ákveðið að hefja byggingu leikskólahúsnæðis í Melahverfi, og var skólinn opnaður þar í janúar 1999 sem einnar deildar leikskóli.
Árið 2007 var opnuð ný deild við leikskólann og tekur hann nú á móti um 40 börnum á aldrinum 18 mánaða til 6 ára. Haustið 2011 sameinuðust Skýjaborg og Heiðarskóli undir merkjum Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar, en leikskólasviðið ber áfram nafnið Skýjaborg.
Skýjaborg hefur frá árinu 2009 verið Grænfánaleikskóli, og leggur skólinn áherslu á sjálfbærni, vistvitund og virðingu fyrir náttúrunni í öllu starfi sínu.
Kenningagrunnur og starfsaðferðir
Starf leikskólans byggir á hugmyndum John Dewey um að læra af reynslunni – learning by doing – þar sem barnið lærir best með því að taka virkan þátt.
Við nýtum einnig kenningar Howard Gardner um fjölgreindir, Caroline Pratt um opinn efnivið og Birgittu Knutsdotter Olofsson um leik barna og þátttöku fullorðinna í leiknum.
Leikskólinn leggur áherslu á skapandi starf, opinn efnivið og virka þátttöku barna í skipulagningu og framkvæmd daglegs starfs. Kennarar leiða börnin í þekkingarleit sinni með opnum spurningum, hlýju og faglegri umhyggju.
Gildi Skýjaborgar
Virðing – vellíðan – metnaður – samvinna
Þessi gildi liggja til grundvallar í öllu starfi leikskólans. Í öllu starfi er leitast við að rækta og efla vellíðan, virðingu, metnað og samvinnu, einnig sjálfstæði, sjálfshjálp, jákvæð samskipti, umburðarlyndi og kurteisi.
Leikurinn
Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og helsta námsleið barnsins. Í leiknum lærir barnið að tjá sig, þroska félagsfærni, vinna úr tilfinningum og þróa hugmyndaflug sitt.
Við leggjum áherslu á frjálsan og sjálfsprottinn leik þar sem barnið ræður för og sköpun og gleði fá að njóta sín. Kennarar fylgja leiknum eftir, taka þátt þegar þörf krefur og tryggja að öll börn fái notið sín í leik og samskiptum.