Heiðarskóli í 50 ár

Nú eru liðin 50 ár frá því að skólahald í Heiðarskóla (upphaflega Leirárskóla) hófst en fyrsti skóladagurinn var 9. nóvember árið 1965. Þann dag mættu í nýbyggðan skólann börn úr Leirár- og Melasveit og Hvalfjarðarströnd en daginn eftir komu svo börn úr Skilmannahreppi og Innri-Akraneshreppi. Fyrst um sinn var nemendum ekið í skólann en 20. mars 1966 var heimavistin tekin í gagnið og daglegur akstur lagður niður. Næstu skólaár var daglegur skólaakstur kringum Akrafjall en flestir aðrir nemendur voru í heimavist. Þannig var fyrirkomulagið allt til haustsins 1972 en þá var heimavistin aflögð og öllum nemendum ekið á milli heimilis og skóla (Sigurður R. Guðmundsson, 1985, bls. 3). Upp úr því var svefnherbergjum smám saman breytt í kennslustofur og kennt á öllum hæðum.

Aðdragandi þess að hrepparnir sunnan Skarðsheiðar hófu byggingu skólahúsnæðis var nokkuð langur og má segja að fræðslulögin frá 1946 hafi markað upphaf þess um leið og þau mörkuðu endalok farskólakerfisins. Með lögunum var sú breyting gerð að skólaskylda barna var lengd um eitt ár (7-15 ára) en einnig voru lagðar línur um byggingu skóla víðs vegar um landið; „Í hverju skólahverfi skal vera skólahús á hentugum stað, og fullnægi það þörfum fyrir barnaskólahald í hverfinu“   . Í næstu grein laganna segir svo: „Heimangönguskólar skulu vera þar, sem staðhættir leyfa, en þar, sem heimangöngu verður ekki við komið sökum mikilla vegalengda, skal reisa heimavistarskóla og keppa að því, að skólahverfi þeirra verði svo fjölmenn, að fullkomið starf verði við þá fyrir tvo fasta kennara eða fleiri“ (Frumvarp til laga um fræðslu barna, e.d.).

Þar með var kominn þrýstingur á hreppana sunnan Skarðsheiðar að undirbúa byggingu skólahúsnæðis fyrir börn á grunnskólaaldri. Lítið gerðist þó í þeim málum næstu árin en á fundi sem kvenfélagið Björk í Skilmannahreppi hélt 29. janúar 1956, var ákveðið að senda áskorun til hreppsnefndar sama hrepps um að skólamálin yrðu tekin föstum tökum. Um haustið sama ár var svo ákveðið á sameiginlegum fundi hreppsnefnda hreppanna sunnan Skarðsheiðar, að bygging heimavistarskóla yrði sameiginleg framkvæmd, og upp úr því hófust umræður um staðsetningu skólans (Jón Magnússon, 1985, bls. 5). Samþykkt var að byggingarkostnaður myndi skiptast þannig að Hvalfjarðarstrandarhreppur tæki á sig 35%, Leirár- og Melahreppur 25%, Skilmannahreppur 20% og Innri-Akraneshreppur 20%. Hrepparnir fjórir tóku samtals á sig 25% af heildarkostnaði á móti 75% framlagi ríkissjóðs (Jón Magnússon, 1985, bls. 7).

Fljótlega fór umræðan að snúast um að skólinn yrði staðsettur í landi Leirár í Leirársveit enda var þar heitt vatn til staðar. Auk þess var löng hefð fyrir skólahaldi að Leirá og ekki ólíklegt að sú staðreynd hafi haft áhrif á endanlega ákvörðun um staðsetningu. Árið 1961 var samningur gerður við Júlíus Bjarnason bónda á Leirá en þar kom fram loforð um að Júlíus myndi gefa allt að 5 hektara lands fyrir skólabyggingar. Vorið 1962 hófust svo framkvæmdir á skólalóðinni og þá strax um sumarið voru skólastofurnar steyptar upp ásamt kjallara heimavistarhússins (Jón Magnússon, 1985, bls. 5). Í september 1963 var búið að steypa þrjár hæðir ofan á kjallara heimavistarhússins og þakið kom svo á um mánuði síðar (Jón Magnússon, 1985, bls. 7). Árið 1966 kom tengibygging (í daglegu tali nefnt hol) á milli heimavistarhúss og kennsluálmu, bílageymsluhús reis árið 1969, félagsheimilið (íþróttahúsið) Heiðarborg einnig um svipað leyti, ný útisundlaug var gerð 1970 og loks var byggt þriggja íbúða raðhús sem var tilbúið til notkunar árið 1971 (Brynjólfur Þorvarðarson, 2005, bls. 9). Síðar var byggt við Heiðarborg og innisundlaug gerð. Þeim framkvæmdum lauk árið 1995.

Af framansögðu má ráða að mikill stórhugur og dirfska bjó í íbúum sunnan Skarðsheiðar. Á tiltölulega stuttum tíma reis hvert mannvirkið af öðru við Leirá og framkvæmdirnar mörkuðu tímamót í skólamálum hreppanna fjögurra. Fyrsti skólastjóri Heiðarskóla var Sigurður R. Guðmundsson og starfaði hann við skólann í yfir 20 ár ásamt því að reka íþróttaskóla frá 1968-1981.  Hann lagði mikla áherslu á fjölbreytt íþróttastarf en margt annað má telja upp eins og samsöng, dans, félagsmál ýmis konar og samstarf við nágrannaskólana (Sigurður R. Guðmundsson, 1985, bls. 4). Nemendur skóla í kring hittust þannig nokkrum sinnum yfir veturinn og tókust á í íþróttum eins og knattspyrnu, körfubolta, sundi, frjálsum og borðtennis en í síðastnefndu greininni þóttu Heiðskælingar sterkir. Töluverður áhugi var einnig á skíðaíþróttinni hér áður fyrr og fóru nemendur t.d. í Húsafell, Skálafell og Kambshól svo einhverjir staðir séu nefndir.     

Sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit varð til 1. júní 2006 þegar hrepparnir fjórir sunnan Skarðsheiðar voru sameinaðir (Um sveitarfélagið, e.d.). Fljótlega komst ný skólabygging á lista yfir stefnumál sveitarfélagsins og 16. mars 2010 var skrifað undir verksamning um framkvæmdirnar við byggingarfélagið Eykt. Síðar sama dag tóku nemendur á yngsta stigi skólans fyrstu skóflustunguna að nýjum Heiðarskóla (Skóflustunga Heiðarskóla tekin, 2010) sem rísa skyldi um það bil miðja vegu milli eldra skólahússins og Heiðarborgar. Mikið var lagt í alla hönnun en um þann þátt sá Teiknistofan Landhönnun í samvinnu við  fyrirtækin Studio Strik arkitekta og VSB verkfræðistofu. Framkvæmdir gengu hratt fyrir sig og 23. ágúst 2011 hófst skólahald í nýrri skólabyggingu Heiðarskóla. Um svipað leyti voru Heiðarskóli og leikskólinn Skýjaborg sameinaðir í Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar.

Nú er fimmta starfsárið í nýjum Heiðarskóla hafið og bjart framundan í skólamálum í Hvalfjarðarsveit. Margt hefur breyst á þessum fimm áratugum eins og gefur að skilja en þó er enn haldið í ýmsar gamlar hefðir eins og t.d. fullveldishátíð sem haldin er í kringum 1. desember. Skólastjóri skólans í dag er Jón Rúnar Hilmarsson en þeir aðrir sem sinnt hafa því hlutverki eru Birgir Karlsson, Haraldur Haraldsson, Helga Stefanía Magnúsdóttir og Ingibjörg Hannesdóttir. Áður hefur verið minnst á fyrsta skólastjóra skólans, Sigurð R. Guðmundsson.

Í dag eru 93 nemendur í 1.-10. bekk við Heiðarskóla. Nú í haust voru þær breytingar gerðar að hverju aldursstigi er kennt að mestu leyti í samkennslu en 1. bekk er kennt sér. Kennarar starfa þannig í teymum og hvert teymi sér um umsjón og kennslu á sínu stigi en kennsla í verklegum greinum er í höndum listgreinateymis. Skólinn er skóli á grænni grein og starfar eftir leið uppbyggingarstefnunnar; uppeldi til ábyrgðar, en þar er áhersla lögð á sjálfsaga og ábyrgð einstaklingsins á eigin hegðun og námi. Gildi skólans eru vellíðan, virðing, metnaður og samvinna (Skólastarfið, 2015). Að lokum má nefna að nú hefur ný skólanámskrá verið samþykkt í fræðslu- og skólanefnd og mun í framhaldinu verða aðgengileg á heimasíðu skólans, http://skoli.hvalfjardarsveit.is/.

 

Lokaorð

Hér hefur verið stiklað á stóru um hálfrar aldrar sögu skólastarfs í Heiðarskóla. Við vinnslu þessarar afmælisgreinar var m.a. stuðst við greinar sem birst hafa í eldri afmælisritum skólans og eru höfundar þeirra þá tilgreindir. Þar fyrir utan má segja að það sem hér hefur komið fram er að miklu leyti skrifað eftir vitneskju og minni greinarhöfundar sem nemanda skólans frá 1976-1986 og starfsmanns frá hausti 2008.

Til hamingju með 50 ára afmælið!

 

Einar S. Sigurðsson

 

 

Heimildir:

Brynjólfur Þorvarðarson. (2005). Heiðarskóli í 40 ár – saga skólahalds við Leirá. Heiðarskóli 1965-2005, 6-9.

Frumvarp til laga um fræðslu barna. (e.d.) Sótt 7. nóvember af http://www.althingi.is/altext/64/s/pdf/0680.pdf

Jón Magnússon. (1985). Bygging Heiðarskóla. Afmælisrit Heiðarskóla 20 ára, 5-7.

Sigurður R. Guðmundsson. (1985). Skólastarfið síðastliðin 20 ár. Afmælisrit Heiðarskóla 20 ára, 3-4.

Skóflustunga Heiðarskóla tekin. (2010). Sótt 7. nóvember 2015 af http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/03/16/bornin_toku_skoflustungu_ad_nyjum_heidarskola/

Skólastarfið. (2015). Sótt 7. nóvember 2015 af http://skoli.hvalfjardarsveit.is/content/sk%C3%B3lastarfi%C3%B0

Um sveitarfélagið.  (e.d.). Sótt 7. nóvember 2015 af http://hvalfjardarsveit.is/efni/um-sveitarf%C3%A9lagi%C3%B0